Lög Spoex

■ 1. gr.
Félagið heitir Samtök psoriasis- og exemsjúklinga, skammstafað Spoex.

■ 2. gr.
Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

■ 3. gr
Félagið er líknarfélag, sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða. Félagið hagi fjáröflun sinni í fullu samræmi við 36. gr. reglugerðar nr. 245, dags. 31. des. 1963 um tekju- og eignarskatt.

■ 4. gr.
Tilgangur félagsins er:
a. að halda uppi fræðslu um psoriasis- og exemsjúkdóma.
b. að efla möguleikana á lækningu psoriasis- og exemsjúkra.
c. að bæta félagslega aðstöðu psoriasis- og exemsjúkra.
d. að stuðla að ókeypis lyfjum fyrir psoriasis- og exemsjúka.
e. að stuðla að samvinnu við erlend félög með sama starfsgrundvöll.

5. gr.
Félagar geta orðið: Psoriasis- og exemsjúkir og velunnarar þeirra, sem styðja vilja tilgang félagsins.

■ 6. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum.
Formann skal kjósa sérstaklega og skal kjörtímabil hans vera tvö ár, en að öðru leyti skal stjórnin skipta með sér verkum.
Kjörtímabil aðalmanna í stjórn og varamanna skal vera 2 ár.  Á hverjum aðalfundi skal kjósa tvo aðalmenn í stjórn og einn varamann til tveggja ára.
Kjósa skal tvo endurskoðendur og skulu þeir kosnir til eins árs.

■ 7. gr.
Stjórnin stýrir málefnum félagsins og annast allar framkvæmdir hennar, nema öðruvísi sé ákveðið. Stjórnin hefur heimild til að kalla sérhvern félaga sér til aðstoðar um starfsemi félagsins. Stjórn ber ábyrgð gerða sinna fyrir aðalfundi. Aðalfundur telst lögmætur, ef löglega er til hans boðað.
Stjórn félagsins getur ákveðið að stofna félagsdeildir út um land. Skulu þær velja sér a.m.k. þriggja manna stjórn, þar af einn til að vera í forsvari fyrir deildina, og halda stjórnarfundi eftir því sem þurfa þykir. Deildir skulu vera félaginu til aðstoðar við að sinna málefnum sjúklinga, hver á sínu starfssvæði. Þær skulu vinna að því að aðstaða sé til ljósabaða á svæðinu og koma fram fyrir hönd félagsins í þeim málum, og sinna öðrum málum sem psoriasis- og exemsjúklinga snertir. Deildir skulu senda árlega skýrslu um starfsemi sína til SPOEX til birtingar í fréttabréfi.

■ 8. gr.
Aðalfund skal halda eigi síðar en í apríl ár hvert. Stjórnin boðar til félagsfundar og undirbýr félagsmálefni. Skylt er stjórninni að boða til fundar ef minnst 20 félagsmenn óska þess með rökstuddri beiðni. Aðalfund skal auglýsa í fjölmiðlum með viku fyrirvara. Lagabreytingar má því aðeins gera að 2/3 fundarmanna greiði þeim atkvæði.

Dagskrá aðalfundar:
1. Formaður setur fundinn.
2. Kjör fundarstjóra og fundarritara.
3. Lesin fundargerð síðasta aðalfundar.
4. Skýrsla stjórnar.
5. Reikningar lagðir fram og skýrðir.
6. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
7. Reikningar félagsins bornir upp.
8. Kosning formanns.
9. Kosning tveggja manna í stjórn.
10. Kosning eins varamanns.
11. Kosning tveggja endurskoðenda.
12. Ákveðin upphæð árgjalds.
13. Lagabreytingar.
14. Önnur mál.

Dagskrá aðalfundar milli formannskosninga skal vera að öllu leyti eins, nema hvað 7. liður (kosning formanns) fellur að sjálfsögðu niður.

■ 9. gr.
Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið.

■ 10. gr.
Árgjald skal ákveðið á aðalfundi. Einstaklingur greiðir fullt árgjald. Foreldri eða hjón með barn eða börn á framfæri, sem eru í samtökunum, greiði hálft árgjald til viðbótar, sem gildi fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Ellilífeyrisþegar og öryrkjar greiði hálft einstaklingsgjald og njóti fullra réttinda eins og aðrir félagsmenn.  Styrktargjald greiða styrktaraðilar samtakanna, sem eru skráð sem fyrirtæki.

■ 11. gr.
Hætti félagið störfum, skal Heilbrigðisráðuneytinu falin umsjón og ráðstöfun eignanna.

■ 12. gr.
Aldrei má breyta ákvæðum 3. gr. laga þessara um rekstur félagsins, 4. greinar um tilgang félagsins, né 11. greinar um ráðstöfun á eignum félagsins, ef það hættir störfum.

■ 13. gr.
Stjórnin ræður málefnum félagsins milli aðalfunda með þeim takmörkunum sem lög þess setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi þess þ.m.t. ráðningu framkvæmdastjóra og ber ábyrgð á fjárreiðum. Á grundvelli bókaðra samþykkta á stjórnarfundi getur hún
skuldbundið félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess. Stjórnin getur þó veitt einum eða fleirum sameiginlega prófkúru fyrir félagið. Til meiriháttar ákvarðanatöku, svo sem kaup, byggingu eða sölu fasteigna, skal ávallt boða til félagsfundar og skal til hans boðað á sama hátt og til aðalfundar. Ræður afl atkvæða úrslitum á slíkum fundum. Stjórn félagsins er heimilt að fela einstaklingum og nefndum, sem hún kýs, afmörkuð verkefni fyrir félagið á milli stjórnarfunda.

Samþykkt á aðalfundi SPOEX 20. október 2022.