Einkenni og meðferðir

Psoriasis

Psoriasis er langvinnur bólgusjúkdómur og segja má að ónæmiskerfi einstaklings með psoriasis byrji að mynda mótefni gegn eigin líkama og því má halda því fram að psoriasis sjúklingur sé með ofnæmi fyrir sjálfum sér. Einkennin birtast yfirleitt í húð sem rauðar upphleyptar skellur þaktar hvítu hreystri og þessu fylgir kláði og stundum verkir. Sjúkdómurinn getur líka komið fram í liðum, sem psoriasis gigt og að auki í líffærum.

Einkenni og tegundir

Útbrotin geta birst á margan hátt og eru mismunandi á milli einstaklinga. Ef einstaklingur hefur einu sinni fengið psoriasisútbrot geta þau brotist fram aftur og aftur hvenær sem er ævinnar, en það er mjög mismunandi hve oft fólk fær útbrot og hve lengi þau vara. Önnur einkenni sem sjúklinga fá eru þurr húð, sprungin húð sem stundum blæðir úr, brunatilfinning og sársauki. Sumir hafa meira og minna stöðug einkenni á meðan aðrir fá e.t.v. einungis einkenni á margra ára fresti.

Það eru til nokkrar tegundir psoriasis og algengust þeirra er Plaque psoriasis þar sem um er að ræða rauðar skellur, örlítið upphleyptar og oft þaktar hvítu hreystri. Skellurnar eru algengastar á stöðum sem verða fyrir álagi svo sem á olnbogum og hnjám en geta runnið saman í stærri svæði og að auki birst í hársverði sem getur síðan leitt til flösu. Einkennin geta líka komið fram á nöglum og nefnist þá nail psoriasis en þær geta orðið þykkar og harðar og jafnvel losnað frá. Guttate psoriasis herjar helst á börn og unglinga og brýst oft fram við sýkingar í hálsi og eru útbrotin eins og dropar útlítandi. Í þessum tilvikum er mikilvægt að meðhöndla undirliggjandi sýkingu í hálsi með sýklalyfjum. Inverse psoriasis herjar helst á svæði líkamans eins og handarkrika, undir brjóst, í kringum kynfæri og versnar við svita og brýst fram í kjölfar sveppasýkingar. Postular psoriasis er sjaldgæft og kemur fram mjög snögglega og fljótt eftir að roði myndast koma blöðrur og þessu getur fylgt hiti, kuldahrollur, kláði og niðurgangur. Sjaldgæfasta tegund psoriasis er Erythrodermic psoriasis sem hylur allan líkamann með rauðum útbrotum sem geta valdið mikilli brunatilfinningu og kláða.

Orsakir, áhættu- og áhrifaþættir

Hver sem er getur fengið psoriasis en orsakir þess eru ekki að fullu þekktar. Ýmsar kenningar eru á lofti til að reyna að skýra þetta. Á seinni árum hafa menn helst aðhyllst því að um sé að ræða einhvers konar ónæmissvörun sem síðan leiði til sjálfsónæmis og mismunandi ytri þættir geti kallað sjúkdóminn fram. Þeir sem ekki verða fyrir slíku áreiti fá ekki alltaf sjúkdóminn jafnvel þó að þeir hafi erft psoriasis tilhneiginguna. Þessi ónæmissvörun á rætur að rekja til T frumna ónæmiskerfisins. Í sjúkdómnum sést óeðlileg þroskun og of hröð frumuskipting í frumum yfirhúðar sem líklega stafar af breyttum eiginleikum varðandi vöxt og þroska þessara fruma. Í psoriasisútbrotum er einnig íferð bólgufruma sem sennilega skýrist af því að frumur yfirhúðar losa frumboðefni og önnur efni sem hafa áhrif á ónæmis og bólgusvörun.

Það eru nokkrir þættir sem taldir eru geta aukið hættuna á að fá sjúkdóminn og það eru þættir eins og streita, reykingar, ofþyngd, veiru- eða bakteríusýking og fjölskyldusaga. Það hefur þó ekki með öryggi tekist að sýna fram á hvernig sjúkdómurinn erfist. Nýlegar rannsóknir á genum benda þó til fjölþátta erfða og líklegt er að genin sem valda psoriasis verði brátt fundin. Ef annað foreldranna hefur psoriasis eru 15% líkur á að barn fái psoriasis. Ef báðir foreldrar hafa psoriasis eru líkurnar hinsvegar 50%. Síðan eru vissir þættir sem erta upp einkenni og það eru þættir eins og streita, kuldi, sýkingar, reykingar, alkóhól, viss lyf (betablokkerar, lithium og Karbamazepín) háþrýstingur, skortur á D vítamíni, flugnabit og sólbruni.

Lækning

Það er ekki til lækning við psoriasis en hægt er að hafa áhrif á einkennin og er markmiðið með þeim meðferðum sem veittar eru, að stöðva þennan hraða vöxt húðfruma. Framfarir í meðhöndlun á psoriasis hafa verið miklar á undanförnum árum og eru mörg dæmi þess að sjúklingar hafi fengið bata í marga mánuði eða jafnvel ár eftir vel heppnaða meðferð.

Fylgikvillar og aukaverkanir

Psoriasis eykur líkur á að sjúklingar fái hættulega sjúkdóma en þessir sjúklingar eru líklegri til að þjást af hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, ofþyngd, kvíða og meltingarfærasjúkdómum. Psoriasis hefur ekki einungis líkamleg áhrif á heilsu fólks þar sem sálræn áhrif eru einnig sláandi. Tæplega 80% telja sig hafa mætt fordómum vegna psoriasis, um 65% telja sig hafa orðið fyrir mismunun í skólum eða á vinnustað vegna sjúkdómsins og 21% telur að psoriasis sé ástæða fyrir lægri heimilistekjum. Þá eiga um 30% psoriasis sjúklinga við þunglyndi að stríða og um 10% þjást af sjálfvígshugsunum.

Meðferðir

Það er mjög mismunandi hvaða meðferð hentar hverjum og einum og sama meðferðin hentar ekki alltaf til langframa. Því getur verið mikilvægt að skipta öðru hverju  um meðferð og einnig er mjög mikilvægt að sú meðferð sem veitt er sé regluleg. Læknir hvers og eins ráðleggur hvaða meðferð hentar best í hvert skipti. Við val á meðferð eru m.a. þættir eins og aldur, heilsufar sjúklings, tegund psoriasis, útbreiðsla sjúkdóms og staðsetning sem hafa áhrif. Einfalda reglan er sú að byrjað er á útvortis meðferð og ef hún dugar ekki þá tekur yfirleitt við ljósameðferð. Dugi  hún ekki þá tekur við lyfjameðferð, þar sem yfirleitt er byrjað á ónæmisbælandi lyfjum í töfluformi en síðan taka við líftæknilyf í sprautuformi ef ekki næst árangur.

Þess ber að geta að umfjöllun þessi er alls ekki tæmandi heldur er stiklað á því algengasta og mikilvægt er, ef þú telur að þú sért með húðsjúkdóm, að panta tíma hjá húðlækni í skoðun.

Útvortis meðferð (krem, smyrsli og húðlyf)

Útvortis meðferð getur verið allt frá því að vera rakagefandi krem yfir í húðlyf, allt eftir alvarleika einkenna. Við mjög mildu psoriasis í húð geta krem og smyrsli ein og sér gert mikið gagn en þegar um alvarlegri sjúkdóm er að ræða er líklegra að þau geri gagn ásamt inntöku lyfja eða ljósameðferð. Útvortis meðferðir hafa áhrif á þá öru frumuskiptingu sem á sér stað í húð psoriasissjúklinga og þessi meðferð er tiltölulega laus við aukaverkanir.

Algengasta meðferðin er kortisónkrem (sterakrem) og þá sérstaklega fyrir psoriasis í andliti, hálsi, kynfærum, nára og handarkrika. Þessi krem eru fljótvirk, erta ekki og eru snyrtileg að nota. Hins vegar geta sterk kortisónkrem í miklu magni haft áhrif á nýrnahettur og að auki valdið húðþynningu og æðasliti ef þau eru notuð til lengri tíma.

Önnur mjög algeng meðferð er með svokölluðum D-vítamín hliðstæðum eins og Daivobet, sem hafa áhrif á hina öru frumuskiptingu í psoriasis breytingum og hægir á húðfrumuvexti. Hentar mjög vel á stór svæði eins og bol og útlimi og það eru nánast engar aukaverkanir af notkun þessar meðferðar.

Gömul, örugg og góð meðferð er tjörumeðferð, sem dregur úr húðflögum og er einkar góð fyrir psoriasis í hársverði, eins og T-Gel sjampó og Doak tjörusjampó. Hún er hins vegar bæði tímafrek og óþrifaleg.

Ljósameðferðir

Ljósameðferðir í læknisfræðilegum tilgangi snúast um að baða húðina reglulega í útfjólubláum geislum undir eftirliti læknis. Notast er við skápa þegar veita á meðferð á allan líkamann en einnig eru til sérstök handa- og fótaljós og ljósagreiður fyrir hársvörð. Tilvísun þarf til að hefja ljósameðferð og þær koma í langflestum tilfellum frá húðsjúkdómalæknum en í stöku tilfella ávísa heilsugæslulæknir slíku eða annars konar sérfræðingur.

UVB ljósameðferð

Við ljósameðferð er algengast að notast sé við UVB geislun, en það er talið virka best á psoriasis. þetta eru útfjólubláir geislar sem einnig er að finna í sólarljósi. Geislarnir fara í gegnum húðina og hægja á vexti ofvirkra húðfruma. Meðferðin er yfirleitt gefin gefin 3-5 sinnum í viku en fjöldi skipta er aðeins mismunandi. Í upphafi UVB ljósameðferðar geta einkennin versnað áður en árangur fer að sjást og einkenni eins og húðrof og kláði geta komið fram og þá þarf stundum að minnka magn geisla sem gefið er. Hægt er að veita samhliða UVB ljósameðferð, staðbundna útvortis meðferð eins og Daivobet, allt til þess að auka árangur og verkun. Ekki hefur verið sýnt fram á að hefðbundin UVB meðferð valdi aukinni hættu á húðkrabba.

PUVA ljósameðferð

PUVA, sem stendur fyrir Psoralen + UVA, er ljósameðferð sem samanstendur af UVA útfjólubláum geislum ásamt notkun lyfja (Psoralen) sem auka ljósnæmi líkamans á meðan á meðferð stendur. Geislarnir eru tilltölulega óvirkir án lyfjanna en þeir fara dýpra í húðina en UVB geislarnir. PUVA meðferð er aðallega notuð við mjög slæmu psoriasis þegar önnur meðferð hefur ekki virkað. Meðferðin er gefin 2-4 sinnum í viku og fer þannig fram að sjúklingarnir taka inn töflur 1-2 klst fyrir ljósameðferð en þessar töflur gera húðina mjög ljósnæma. Sumir sjúklingar fá ógleði af töflunum, kláða og roða en að auki þurfa sjúklingar að ganga með sérstök sólgleraugu allan meðferðardaginn. Aukin hætta er á húðkrabbameini eftir ákveðinn fjölda PUVA meðferða, en ekki hefur þó verið sýnt fram á aukningu sortuæxla.

Í sólarljósi eru bæði UVB og UVA geislar og því virka sólböð á svipaðan hátt og þegar farið er í UVB ljós, en það þarf sérstaklega að huga að því að við sólböð eru auknar líkur á að þróa með sér húðkrabbamein og er það aðallega vegna UVA geisla.

Hinir hefðbundnu ljósabekkir sem stundaðir eru til að fá húðlit eru aðallega UVA ljós og notkun eykur líkur á húðkrabbameini og þeir gera lítið sem ekkert fyrir psoriasissjúklinga.

 

Loftslagsmeðferð

Loftlagsmeðferðir ganga út á þriggja vikna meðferð erlendis (sólríkum löndum) og fela í sér sólböð, sjóböð, almenna fræðslu um sjúkdóminn og aukna hreyfingu á sérhæfðri meðferðarstöð. Sumir halda að loftslagsmeðferð sé eins og dæmigerð sólarlandaferð, þetta sé gott frí í sól og sumaryl, en svo er ekki. Þarna eru samankomnir psoriasissjúklingar, sem eru komnir langt að, eru fjarri fjölskyldu sinni og eini tilgangurinn ferðarinnar er sinna meðferðinni og fá bata. Hver og einn þarf að fylgja ákveðnu meðferðarprógrammi, undir eftirliti lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem starfa við stöðina. Þetta meðferðarform hefur reynst mörgum mjög vel og var í boði hér á landi fram til ársins 2015, en þessi meðferð hefur ekki staðið íslenskum psoriasissjúklingum til boða síðan þá.

Lónsmeðferð (Bláa lónið)

Hér á Íslandi er psoriasis meðferð Bláa Lónsins viðurkenndur meðferðarkostur hjá heilbrigðisyfirvöldum og hefur meðferð sú sem þar er, verið veitt um árabil.

Meðferðin byggir fyrst og fremst á böðun í Bláa Lóninu en jarðsjórinn sem þar er að finna er þekktur fyrir lækningamátt og virk efni eins og steinefni, kísil og þörunga. Fallegt náttúrlegt umhverfi, ferskt loft, hreint vatn eru einnig mikilvægir þættir meðferðarinnar og hafa góð áhrif á sjúklinga. Segja má að meðferð sú sem veitt er í Bláa Lóninu sé þríþátta en ásamt böðun í lóninu er þar yfirleitt veitt ljósameðferð (UVB) ásamt notkun á kísil og húðkremum Bláa Lónsins, unnar úr lóninu.

Til þess að eiga möguleika á meðferð í Lækningalind Bláa Lónsins, þarf tilvísun frá húðsjúkdómalækni og í flestum tilfellum er um að ræða 12 skipti nema ef húðsjúkdómalæknir og/eða hjúkrunarfræðingur Lækningalindar telur þörf á fleiri skiptum. Húðlæknir hefur yfirumsjón með meðferðinni og metur ásamt hjúkrunarfræðingi hvaða þættir meðferðarinnar henta hverjum og einum ásamt lengd meðferðar.

Sjúkratryggingar Íslands og Bláa Lónið hafa gert með sér samning sem felur í sér að Lækningalindin veitir íslenskum psoriasissjúklingum meðferð þeim að kostnaðarlausu og án opinberrar greiðsluþátttöku. Þetta á við um alla þætti meðferðar, böðun, ljós og krem.

Lyfjameðferð

Lyfjameðferð er veitt ef ekkert annað dugar eða ef einkenni eru sérstaklega slæm og þá ýmist í töflu- og/eða sprautuformi. Annars vegar er um að ræða ónæmisbælandi lyf sem hafa áhrif á frumuskiptingu og þ.a.l sjúkdómshemjandi áhrif, gefin í töfluformi, en hins vegar líftæknilyf gefin í sprautuformi sem hafa áhrif á eitilfrumur í húð.

Ónæmisbælandi lyf sem hvað þekktast er að notað séu hér á landi er Methotrexate sem er í grunninn krabbameinslyf. Lyfið hefur áhrif á frumufjölgun í húð og er gott bæði við psoriasis sem og psoriasis gigt. Það er yfirleitt gefið einu sinni í viku og reynist oft vel sem langtímameðferð en fylgjast þarf vel með lifrarstarfsemi meðan á meðferð stendur til að koma í veg fyrir aukaverkanir. Við notkun hættir ónæmiskerfið að valda bólgu en á sama tíma eru mjög lítil áhrif á okkar venjulega ónæmiskerfi sem við þurfum á að halda í daglega lífinu. Þannig að þó svo að einstaklingur noti lyfið árum saman þá sjást engar langtíma aukaverkanir sem tengjast ónæmisbælingu.

Cyclosporin er annað ónæmisbælandi lyf sem er yfirleitt notað í þeim tilfellum þar sem psoriasis svarar ekki annarri meðferð. Takmarkandi þáttur notkunar lyfsins eru neikvæð áhrif þess á nýrnastarfsemi og því hentar lyfið frekar í þeim meðferðum sem taka minna en ár.

Neotigason (Retinoiðar) sem er efnafræðilega skylt A vítamíni er notað til að meðhöndla psoriasis á mjög háu stigi þegar önnur lyfjameðferð hefur verið fullreynd en án árangurs. Lyfið vinnur á móti myndun hornhúðar svo og fleiri þáttum í starfsemi húðfrumna. Bætandi áhrif lyfsins koma fram eftir nokkurra vikna notkun og einkenni sjúkdómsins koma ekki alltaf aftur í ljós þegar töku lyfsins lýkur. Notkun takmarkast hins vegar vegna aukaverkana, sem eru þurrkur í öllum slímhimnum, hækkun á blóðfitum, fósturskaðar ofl.

Dugi ekki ónæmisbælandi lyf þá eru til líftæknilyf sem er gefin með sprautu í æð eða undir húð ýmist á sjúkrahúsi í umsjá sérfræðings eða sjúklingur gefur sér sjálfur undir húð heima. Þetta eru mjög dýr leyfisskyld lyf og þarf sérstakt samþykki fyrir því að setja sjúklinga á meðferð og er því notkun þeirra nokkuð takmörkuð. Áætla má að meðferð fyrir einn sjúkling sé um 2-3 milljónir á ári.

Þessi lyf eru yfirleitt sérhæfðari og virkari en ónæmisbælandi lyf, en þau eru unnin úr lifandi frumum og breyta virkni ónæmiskerfisins. Þau eru hönnuð til að hemja boðefnið TNF-alfa sem gegnir mikilvægu hlutverki í bólguferli og það er einmitt talið að T-eitilfrumur gegni lykilhlutverki í psoriasis. Með því að hemja boðefnið, hemjast merkjasendingar milli eitilfruma og það hefur þau áhrif á eitilfrumur í húð að bólgur stöðvast.

Þekktustu lyfin sem notuð eru hér á landi eru Enbrel (Etanercept)  sem er beint gegn viðtaka TNF sameindar og bindur TNF-alfa, sem er gefið undir húð. Remicade (Infliximab), sem er beint gegn TNF sameindinni, er sem sagt chimeric anti-TNF-alfa mótefni og er gefið í æð. Humira, (Adalimumab)  sem er beint gegn TNF sameindinni, þ.e.a.s. er human anti-TNF alfa mótefni og er gefið undir húð.

Hvernig get ég haft áhrif á sjúkdóminn?

  • Haltu þér í góðu formi líkamlega
  • Haltu þér í góðu formi andlega
  • Fáðu nægan góðan svefn
  • Stundaðu reglulega hreyfingu
  • Borðaðu holt og fjölbreytt fæði
  • Berðu reglulega á þig rakakrem
  • Hugsaðu vel um húðina
  • Sinntu þeirri meðferð sem þú ert í
  • Fara reglulega til læknis
  • Forðastu streituvalda
  • Forðastu að reykja
  • Passaðu að sólbrenna ekki
  • Neyttu áfengis í hófi

Exem

Exem er húðsjúkdómur sem lýsir sér einna helst í roða, þurrki og kláða í húð. Það er algengast hjá börnum en getur komið fram hjá hvaða aldurshóp sem er. Exem, eins og sjúkdómurinn kallast á daglegu máli, er notað sem heiti yfir nokkrar tegundir húðsjúkdóma og má hér nefna atópískt (AD) exem sem er langalgengasta tegundin og getur verið alvarlegur og mjög langvinnur. Þegar talað er um exem er yfirleitt átt við þá tegund en einnig má nefna hér handarexem og snertiexem. Einkenni eru mismunandi milli einstaklinga og tegunda og hægt er að vera með fleiri en eina tegund exems. Í allri umfjöllun hér á eftir verður ekki gerður greinarmunur á milli tegunda, heldur fjallað að mestu leyti um AD tegundina. Það er vissulega mikilvægt að læknir greini þá tegund sem einstaklingur er með því meðferðir geta verið aðeisn mismunandi og einnig er það mismunandi hvað það er sem einstaklingurinn þarf að forðast, gera og ekki gera.

Einkenni og tegundir

Exem er húðsjúkdómur í ystum lögum húðarinnar. Heilbrigð húð viðheldur raka og ver húð fyrir bakteríum en húð exemsjúklinga er þurrari en vanalega, hún er „gljúpari“ sem veldur því að rakatap verður meira og að sama skapi eiga utanaðkomandi efni greiðari leið inn í húðina.

Algengustu einkennin eru þurr húð, mikill kláði sérstaklega að næturlagi, rauðir eða brúngráir flekkir sem geta birts m.a. á höndum, fótum, ökklum, augnlokum, bringu, hálsi, hnéspótum og olnbogabótum. Að auki geta sést vökvafylltar blöðrur og sprungur í húð.

Orsakir, áhættu- og áhrifaþættir

Orsakir exems eru í mörgum tilvikum óþekktar en geta verið erfðafræðilegar eða utanaðkomandi. Helsti áhættuþáttur er fjölskyldusaga um exem, ofnæmi, heyofnæmi eða asmi. Hjá börnum getur fæðuofnæmi haft áhrif á að það þrói með sér exem. Ef annað foreldri hefur exem, asma eða heyofnæmi þá eru 50% líkur á að barn fá alla vega einn af þeim sjúkdómum og exem virðist vera algengara í þéttbýli og þróuðum löndum. Áhrif til hins verra hafa þættir eins og sterkar sápur, kuldi, ofnæmi fyrir efnum sem koma í snertingu við húðina.

Lækning

Exem byrjar yfirleitt fyrir 5 ára aldurinn og getur staðið yfir öll unglingsárin og til fullorðins ára. Hjá sumum stendur það yfir visst tímabil og liggur svo niðri í mörg ár en blossar svo upp aftur. Enginn lækning hefur fundist við exemi, en meðferðir og það að hugsa vel um sig, bera reglulega á sig og forðast efni sem hafa slæm áhrif á húðina eins og sterkar sápur, getur dregið úr ertingu og komið í veg fyrir útbreiðslu.

Fylgikvillar og aukaverkanir

Fylgikvillar exems geta verið meðal annars, asmi og frjókornaofnæmi en meira en helmingur barna með exem þróar með sér asma og frjókornaofnæmi fyrir þrettán ára aldur. Langvarandi kláði og ef mikið er klórað, getur leitt til þess að húðin verður leðurkennd og þykk og hún getur rofnað sem síðan getur leitt til bakteríu eða veirusýkinga. Að auki getur mikill kláði og er klórað er leitt til ertandi húðbólgu og ofnæmisviðbragða og þetta getur síðan leitt til svefnvandamáls eða skorts á gæðum svefns.

Meðferðir

Meðferðir við exemi miða að því að draga úr einkennum og vanlíðan. Það eru ýmsir ættir sem hægt er að tileinka sér sem draga úr þurrki eins og að fara í snöggar sturtur, nota mildar sápur og þurrka sér varlega. Einnig er mikilvægt að bera rakakrem á húð amk 2x á dag, að forðast þætti/aðstæður sem hafa slæm áhrif á húðina eins og streitu, svita og sápur. Klórböð og kalíumböð geta gert einstaklingum með exem gott.

Meðferðir sem læknar ávísa eru t.d. Sýklameðferðir í töflu eða kremformi, sterakrem, ljósameðferðir og blauvafningar sem framkvæmdir eru á sjúkrahúsi. Að auki ávísa læknar sálrænum meðferðum.

Psoriasisgigt

Psoriasisgigt einkennist af bólguviðbragði sem leggst einkum á liði en hefur ákveðin tengsl við bólgu í öðrum vefjum. Um 30% sjúklinga með psoriasis í húð þróa einnig með sér psoriasis í liðum. Það þekkist að fá einungis psoriasisgigt þó það sé mun algengara að einkenni komi fyrst fram í húð og svo bætist stoðkerfisvandinn við. Algengust er psoriasisgigt hjá þeim sem eru með útbreiddan Pustuler Psoriasis eða roðapsoriasis. Þeir sem hafa psoriasis hafa oft önnur einkenni frá liðamótum án þess að um gigt með bólgubreytingum sé að ræða.

Einkenni og tegundir

Psoriasisgigtin situr oftast í fingurliðum, en getur líka verið í hálshrygg og kjálkaliðum. Naglabreytingar tengjast oft psoriasisgigt í höndum.

Orsakir, áhættu- og áhrifaþættir

Hver sem er getur fengið psoriasis en orsakir þess eru ekki að fullu þekktar. Ýmsar kenningar eru á lofti til að reyna að skýra þetta. Á seinni árum hafa menn helst aðhyllst því að um sé að ræða einhvers konar ónæmissvörun sem síðan leiði til sjálfsónæmis og mismunandi ytri þættir geti kallað sjúkdóminn fram. Þeir sem ekki verða fyrir slíku áreiti fá ekki alltaf sjúkdóminn jafnvel þó að þeir hafi erft psoriasis tilhneiginguna. Þessi ónæmissvörun á rætur að rekja til T frumna ónæmiskerfisins. Í sjúkdómnum verður óeðlileg ónæmæis og bólgusvörun sem hefur getur valdið stoðkerfisvanda og liðbreytingum.
Það eru nokkrir þættir sem taldir eru geta aukið hættuna á að fá sjúkdóminn og það eru þættir eins og streita, reykingar, ofþyngd, veiru- eða bakteríusýking og fjölskyldusaga. Það hefur þó ekki með öryggi tekist að sýna fram á hvernig sjúkdómurinn erfist. Nýlegar rannsóknir á genum benda þó til fjölþátta erfða og líklegt er að genin sem valda psoriasis verði brátt fundin. Ef annað foreldranna hefur psoriasis eru 15% líkur á að barn fái psoriasis. Ef báðir foreldrar hafa psoriasis eru líkurnar hinsvegar 50%. Síðan eru vissir þættir sem erta upp einkenni og það eru þættir eins og streita, kuldi, sýkingar, reykingar, alkóhól, viss lyf (betablokkerar, lithium og Karbamazepín) háþrýstingur, skortur á D vítamíni, flugnabit og sólbruni.

Lækning

Það er ekki til lækning við psoriasis en hægt er að hafa áhrif á einkennin og er markmiðið með þeim meðferðum sem veittar eru, að minnka bólgumyndun til að hægja á liðskemmdum og varðveita þannig færni hvers og eins.
Framfarir í meðhöndlun á psoriasis hafa verið miklar á undanförnum árum og eru mörg dæmi þess að sjúklingar hafi fengið bata í marga mánuði eða jafnvel ár eftir vel heppnaða meðferð.

Fylgikvillar og aukaverkanir

Psoriasis eykur líkur á að sjúklingar fái hættulega sjúkdóma en þessir sjúklingar eru líklegri til að þjást af hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, ofþyngd, kvíða og meltingarfærasjúkdómum. Psoriasis hefur ekki einungis líkamleg áhrif á heilsu fólks þar sem sálræn áhrif eru einnig sláandi. Tæplega 80% telja sig hafa mætt fordómum vegna psoriasis, um 65% telja sig hafa orðið fyrir mismunun í skólum eða á vinnustað vegna sjúkdómsins og 21% telur að psoriasis sé ástæða fyrir lægri heimilistekjum. Þá eiga um 30% psoriasis sjúklinga við þunglyndi að stríða og um 10% þjást af sjálfvígshugsunum.

Meðferðir

Val á meðferð við psoriasisgigt er mjög áþekkt meðferð á psoriasis í húð. Psoriasis gigt er oftast meðhöndluð með bólgueyðandi, ónæmisdempandi lyfjum líkt og Methotrexati en dugi þau ekki til er gripið til líftæknilyfja. Fyrsta valið er þá oft svokallaðir TNF hemlar en önnur líftæknilyf eru með aðra verkun. Þau þarf að velja eftir sjúkdómsstigi, alvarleika og birtingarmynd og með tilliti til fylgisjúkdóma. Víða erlendis eru til meðferðaeiningar þar sem læknateymi gigtar- og húðlækna vinna saman við meðferð psoriasissjúklinga. Hér á landi eru ekki sérstakar móttökur fyrir þennan sjúklingahóp en gott samstarf er á LSH milli gigtar- og húðdeildarinnar sem báðar eru staðsettar í Fossvogi. Læknar á deildunum hittast reglulega og ræða erfið tilfelli í þeim tilgangi að hjálpa sjúklingunum og bæta líðan þeirra og lífsgæði.

Hvernig get ég haft áhrif á sjúkdóminn?

  • Haltu þér í góðu formi líkamlega
  • Haltu þér í góðu formi andlega
  • Fáðu nægan góðan svefn
  • Stundaðu reglulega hreyfingu
  • Borðaðu holt og fjölbreytt fæði
  • Berðu reglulega á þig rakakrem
  • Hugsaðu vel um húðina
  • Sinntu þeirri meðferð sem þú ert í
  • Fara reglulega til læknis
  • Forðastu streituvalda
  • Forðastu að reykja
  • Passaðu að sólbrenna ekki
  • Neyttu áfengis í hófi