6. október 2025

Aðalfundur ÖBÍ 3. – 4. október

SPOEX tók þátt í aðalfundi ÖBÍ sem haldinn var 3. – 4. október

Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, hlaut endurkjör á aðalfundi ÖBÍ sem haldinn var á Grand hótel í Reykjavík um helgina. Alma var ein í framboði, en hún náði fyrst kjöri árið 2023.

Auk formannskjörs voru kosnir formenn málefnahópa ÖBÍ, sem eiga jafnframt sæti í stjórn. Jón Gunnar Benjamínsson úr Sjálfsbjörgu var kjörinn formaður aðgengishóps, Hrönn Stefánsdóttir úr Gigtarfélagi Íslands formaður atvinnu- og menntahóps, Sindri Viborg úr Tourette samtökunum formaður barnamálahóps, Telma Sigtryggsdóttir úr Heyrnarhjálp formaður heilbrigðishóps, María Pétursdóttir úr MS félaginu formaður húsnæðishóps og Geirdís Hanna Kristjánsdóttir úr ADHD samtökunum formaður kjarahóps.

Þá voru kjörnir til stjórnarsetu þeir Ólafur Jóhann Borgþórsson úr Parkinsonsamtökunum, Rúnar Björn Herrera úr SEM samtökunum og Stefán Magnússon úr Gigtarfélagi Íslands.

Fulltrúar SPOEX sem voru kjörnir á aðalfundi ÖBÍ eru Drífa Ósk Sumarliðadóttir og Elín Helga Hauksdóttir. Drífa var kosin áfram sem aðalmaður í Kjörnefnd og Elín var kosin sem varamaður skoðunarmanna reikninga.

Þrjú ný hagsmunafélög voru samþykkt inn í ÖBÍ réttindasamtök á aðalfundi á Grand hótel í Reykjavík. Það voru Átak – félag fólks með þroskahömlun, HD samtökin á Íslandi og PCOS samtök Íslands. Eru aðildarfélög ÖBÍ því orðin 43 talsins.