Áratugum saman hefur psoriasis fyrst og fremst verið skilgreindur sem húðsjúkdómur. Nýjustu niðurstöður Alþjóðlega psoriasis-ráðsins (IPC) sýna þó að sjúkdómurinn er mun flóknari og hefur víðtæk áhrif á heilsu fólks.
Á „Think Tank“ fundi ráðsins var fjallað um sterk tengsl psoriasis við efnaskiptasjúkdóma, svo sem offitu og sykursýki, auk aukinnar áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Rannsóknir benda til þess að langvinn bólga, sem einkennir psoriasis, geti haft áhrif á efnaskipti líkamans og stuðlað að öðrum alvarlegum sjúkdómum.
Sérfræðingar lögðu áherslu á að meðferð psoriasis þurfi í auknum mæli að vera heildræn. Það felur í sér að meta hjarta- og æðaáhættu, efnaskiptaheilsu og lífsstíl samhliða hefðbundinni húðmeðferð.
Einnig var rætt um nýjar meðferðarleiðir, þar á meðal lyf sem hafa verið notuð við sykursýki og offitu, en kunna jafnframt að hafa jákvæð áhrif á psoriasis. Slíkar niðurstöður gætu breytt nálgun í meðferð sjúkdómsins á komandi árum.
Niðurstaða fundarins er skýr: Psoriasis ætti að líta á sem kerfisbundinn sjúkdóm sem krefst víðtækrar og samhæfðrar heilbrigðisþjónustu.
Linkur á áherslur frá fundinum:
https://psoriasiscouncil.org/congress-reports/think-tank-25/?utm_source=Master+List&utm_campaign=9074c5f13a-EMAIL_CAMPAIGN_2019_03_14_06_00_COPY_01&utm_medium=email&utm_term=0_76ed70c5ae-9074c5f13a-106741449
