Psoriasisgigt einkennist af bólguviðbragði sem leggst einkum á liði en hefur ákveðin tengsl við bólgu í öðrum vefjum. Um 30% sjúklinga með psoriasis í húð þróa einnig með sér psoriasis í liðum. Það þekkist að fá einungis psoriasisgigt þó það sé mun algengara að einkenni komi fyrst fram í húð og svo bætist stoðkerfisvandinn við. Algengust er psoriasisgigt hjá þeim sem eru með útbreiddan Pustuler Psoriasis eða roðapsoriasis. Þeir sem hafa psoriasis hafa oft önnur einkenni frá liðamótum án þess að um gigt með bólgubreytingum sé að ræða.
Einkenni og tegundir psoriasisgigtar
Psoriasisgigtin situr oftast í fingurliðum, en getur líka verið í hálshrygg og kjálkaliðum. Naglabreytingar tengjast oft psoriasisgigt í höndum.
Orsakir, áhættu- og áhrifaþættir
Hver sem er getur fengið psoriasis en orsakir þess eru ekki að fullu þekktar. Ýmsar kenningar eru á lofti til að reyna að skýra þetta. Á seinni árum hafa menn helst aðhyllst því að um sé að ræða einhvers konar ónæmissvörun sem síðan leiði til sjálfsónæmis og mismunandi ytri þættir geti kallað sjúkdóminn fram. Þeir sem ekki verða fyrir slíku áreiti fá ekki alltaf sjúkdóminn jafnvel þó að þeir hafi erft psoriasis tilhneiginguna. Þessi ónæmissvörun á rætur að rekja til T frumna ónæmiskerfisins. Í sjúkdómnum verður óeðlileg ónæmæis og bólgusvörun sem hefur getur valdið stoðkerfisvanda og liðbreytingum.
Það eru nokkrir þættir sem taldir eru geta aukið hættuna á að fá sjúkdóminn og það eru þættir eins og streita, reykingar, ofþyngd, veiru- eða bakteríusýking og fjölskyldusaga. Það hefur þó ekki með öryggi tekist að sýna fram á hvernig sjúkdómurinn erfist. Nýlegar rannsóknir á genum benda þó til fjölþátta erfða og líklegt er að genin sem valda psoriasis verði brátt fundin. Ef annað foreldranna hefur psoriasis eru 15% líkur á að barn fái psoriasis. Ef báðir foreldrar hafa psoriasis eru líkurnar hinsvegar 50%. Síðan eru vissir þættir sem erta upp einkenni og það eru þættir eins og streita, kuldi, sýkingar, reykingar, alkóhól, viss lyf (betablokkerar, lithium og Karbamazepín) háþrýstingur, skortur á D vítamíni, flugnabit og sólbruni.