Psoriasisgigt einkennist af bólguviðbragði sem leggst einkum á liði en hefur ákveðin tengsl við bólgu í öðrum vefjum. Um 30% sjúklinga með psoriasis í húð þróa einnig með sér psoriasis í liðum. Það þekkist að fá einungis psoriasisgigt þó það sé mun algengara að einkenni komi fyrst fram í húð og svo bætist stoðkerfisvandinn við. Algengust er psoriasisgigt hjá þeim sem eru með útbreiddan Pustuler Psoriasis eða roðapsoriasis. Þeir sem hafa psoriasis hafa oft önnur einkenni frá liðamótum án þess að um gigt með bólgubreytingum sé að ræða.

Einkenni og tegundir psoriasisgigtar

Psoriasisgigtin situr oftast í fingurliðum, en getur líka verið í hálshrygg og kjálkaliðum. Naglabreytingar tengjast oft psoriasisgigt í höndum.

Orsakir, áhættu- og áhrifaþættir

Hver sem er getur fengið psoriasis en orsakir þess eru ekki að fullu þekktar. Ýmsar kenningar eru á lofti til að reyna að skýra þetta. Á seinni árum hafa menn helst aðhyllst því að um sé að ræða einhvers konar ónæmissvörun sem síðan leiði til sjálfsónæmis og mismunandi ytri þættir geti kallað sjúkdóminn fram. Þeir sem ekki verða fyrir slíku áreiti fá ekki alltaf sjúkdóminn jafnvel þó að þeir hafi erft psoriasis tilhneiginguna. Þessi ónæmissvörun á rætur að rekja til T frumna ónæmiskerfisins. Í sjúkdómnum verður óeðlileg ónæmæis og bólgusvörun sem hefur getur valdið stoðkerfisvanda og liðbreytingum.
Það eru nokkrir þættir sem taldir eru geta aukið hættuna á að fá sjúkdóminn og það eru þættir eins og streita, reykingar, ofþyngd, veiru- eða bakteríusýking og fjölskyldusaga. Það hefur þó ekki með öryggi tekist að sýna fram á hvernig sjúkdómurinn erfist. Nýlegar rannsóknir á genum benda þó til fjölþátta erfða og líklegt er að genin sem valda psoriasis verði brátt fundin. Ef annað foreldranna hefur psoriasis eru 15% líkur á að barn fái psoriasis. Ef báðir foreldrar hafa psoriasis eru líkurnar hinsvegar 50%. Síðan eru vissir þættir sem erta upp einkenni og það eru þættir eins og streita, kuldi, sýkingar, reykingar, alkóhól, viss lyf (betablokkerar, lithium og Karbamazepín) háþrýstingur, skortur á D vítamíni, flugnabit og sólbruni.

Lækning

Það er ekki til lækning við psoriasis en hægt er að hafa áhrif á einkennin og er markmiðið með þeim meðferðum sem veittar eru, að minnka bólgumyndun til að hægja á liðskemmdum og varðveita þannig færni hvers og eins.
Framfarir í meðhöndlun á psoriasis hafa verið miklar á undanförnum árum og eru mörg dæmi þess að sjúklingar hafi fengið bata í marga mánuði eða jafnvel ár eftir vel heppnaða meðferð.

Fylgikvillar/aukaverkanir

Psoriasis eykur líkur á að sjúklingar fái hættulega sjúkdóma en þessir sjúklingar eru líklegri til að þjást af hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, ofþyngd, kvíða og meltingarfærasjúkdómum. Psoriasis hefur ekki einungis líkamleg áhrif á heilsu fólks þar sem sálræn áhrif eru einnig sláandi. Tæplega 80% telja sig hafa mætt fordómum vegna psoriasis, um 65% telja sig hafa orðið fyrir mismunun í skólum eða á vinnustað vegna sjúkdómsins og 21% telur að psoriasis sé ástæða fyrir lægri heimilistekjum. Þá eiga um 30% psoriasis sjúklinga við þunglyndi að stríða og um 10% þjást af sjálfvígshugsunum.

Meðferðir

Val á meðferð við psoriasisgigt er mjög áþekkt meðferð á psoriasis í húð. Psoriasis gigt er oftast meðhöndluð með bólgueyðandi, ónæmisdempandi lyfjum líkt og Methotrexati en dugi þau ekki til er gripið til líftæknilyfja. Fyrsta valið er þá oft svokallaðir TNF hemlar en önnur líftæknilyf eru með aðra verkun. Þau þarf að velja eftir sjúkdómsstigi, alvarleika og birtingarmynd og með tilliti til fylgisjúkdóma. Víða erlendis eru til meðferðaeiningar þar sem læknateymi gigtar- og húðlækna vinna saman við meðferð psoriasissjúklinga. Hér á landi eru ekki sérstakar móttökur fyrir þennan sjúklingahóp en gott samstarf er á LSH milli gigtar- og húðdeildarinnar sem báðar eru staðsettar í Fossvogi. Læknar á deildunum hittast reglulega og ræða erfið tilfelli í þeim tilgangi að hjálpa sjúklingunum og bæta líðan þeirra og lífsgæði.

Hvað get ég sjálf/ur gert til að hafa áhrif á sjúkdóminn minn

 • Haltu þér í góðu formi líkamlega
 • Haltu þér í góðu formi andlega
 • Fáðu nægan góðan svefn
 • Stundaðu reglulega hreyfingu
 • Borðaðu holt og fjölbreytt fæði
 • Berðu reglulega á þig rakakrem
 • Hugsaðu vel um húðina
 • Sinntu þeirri meðferð sem þú ert í
 • Fara reglulega til læknis
 • Forðastu streituvalda
 • Forðastu að reykja
 • Passaðu að sólbrenna ekki
 • Neyttu áfengis í hófi

Vefslóð á klínískar leiðbeiningar um psoriasisgigt