Á göngudeildinni eru tveir ljósaskápar, handa- og fótaljós og greiður. Þangað geta þeir sjúklingar leitað sem þurfa á UVB eða UVA ljósameðferð að halda. Sjúklingar þurfa ekki að panta tíma heldur mæta hvenær sem er á auglýstum opnunartíma.

Mikið er lagt upp úr því að vera alltaf með allan okkar búnað í góðu ástandi, tækin eru reglulega yfirfarin og skipt er um perur í samræmi við ráðleggingar frameiðanda. Það er mjög mikilvægt að svo sé gert svo sú meðferð sem hver og einn er að sækja beri tilætlaðan árangur.

Ljósameðferðir í læknisfræðilegum tilgangi snúast um að baða húðina reglulega í útfjólubláum geislum undir eftirliti læknis. Notast er við skápa þegar veita á meðferð á allan líkamann en einnig eru til sérstök handa- og fótaljós og ljósagreiður fyrir hársvörð. Tilvísun þarf til að hefja ljósameðferð og þær koma í langflestum tilfellum frá húðsjúkdómalæknum en í stöku tilfella ávísa heilsugæslulæknir slíku eða annars konar sérfræðingur. Húðlæknir metur hversu oft þarf að veita meðferð en yfirleitt er ráðlagt að koma 3x í viku, helst annan hvern dag.

Það eru tvær sturtur við klefana og hægt er að leigja handklæði á vægu verði ef svo ber undir. Mælt er með stuttri sturtuferð fyrir meðferð í ljósaskápum til að auka áhrif geislanna. Einnig mæla sjúkraliðar Spoex með því að afhreistra blettina á kvöldin fyrir komu í ljós daginn eftir. Það er gert með því að nota góð shampó, krem og smyrsli. Sjúkraliðar Spoex veita nánari upplýsingar um hvert tilfelli fyrir sig.