Blog

Bólgur – Hvernig tengjast þær mér?

Bólgur eru eðlilegt viðbragð ónæmiskerfisins þegar ógn steðjar að en við getum með lífsstíl okkar haft mikil áhrif á bólgur í líkamanum. Psoriasis og exem eru bólgusjúkdómar, þrátt fyrir að vera mjög ólíkir sjúkdómar í eðli sínu

 

Bólgur eru það sem á ensku nefnist „inflammation“. Þær eru varnarsvar líkamans við áverkum, skemmd eða árás t.d. sýklaárás. Ónæmiskerfið stýrir vörnum líkamans og bólgusvörun. Eðlileg bólgusvörun er varnarkerfi líkamans gegn sjúkdómum. Ef allt er eðlilegt stöðvast framleiðsla bólguvaka að viðgerð lokinni. Haldi líkaminn hins vegar áfram að framleiða bólgumyndandi boðefni, getur það leitt til þrálátrar bólgu á lágu stigi. Langvinn og óeðlileg bólgusvörun getur verið skaðleg og valdið offitu3 og erfiðum sjúkdómum. Þar má nefna sjúkdóma eins og liðagigt, kransæðasjúkdóma, alzheimer og ýmsar tegundir krabbameins.

 

Hins vegar vita færri að undirliggjandi bólga ýtir undir einkenni psoriasis í húð og liðum og exems.

Psoriasis er langvarandi sjálfsofnæmis- og bólgusjúkdómur sem ekki er til nein lækning við. Meðferðir við psoriasis miðast við að halda einkennum niðri því sjúkdómurinn einkennist af versnun og betrun. Sjúkdómurinn felur í sér offjölgun keratínfruma og talið er að 2-3% fólks séu með psoriasis. Sjúkdómurinn birtist annars vegar í húð og hins vegar í liðum.

 

Flestir þróa fyrst með sér húðeinkenni og um 10-40% þeirra sem fá húðeinkenni fá einkenni í liði líka. Þó er hægt að fá psoriasis eingöngu í liði þó það sé sjaldgæfara en hitt.

Sjúkdómurinn er arfgengur en umhverfisþættir geta líka haft áhrif á einkenni hans. Einkenni sjálfsofnæmissjúkdóma er að ónæmis- viðbragð beinist gegn heilbrigðum vefjum líkamans, veldur bólgum og síðan skemmd á líkamshlutum. Psoriasis í húð einkennist af hreistrun, kláða og roða í húð. Psoriasisgigt einkennist af bólguviðbragði sem leggst einkum á liði en hefur ákveðin tengsl við bólgu í öðrum vefjum. Liðbólgur vegna psoriasisgigt- ar geta leitt til óafturkræfs skaða á liðum með færniskerðingu.
Exem er krónískur bólgusjúkdómur í húð sem byrjar oft með kláða og roða. Síðar myndast vessafylltar blöðrur eða rauðleitir hnútar sem geta sprungið og myndað vessandi sár. Exemið þróast að lokum yfir í þurrara stig þegar vessinn þornar og hrúður myndast. Helstu orsakir exems eru ofnæmi, erfðaþættir eða ef líkaminn er í sífelldri snertingu við efni sem skaðar hann.

Hvað get ég gert til að halda bólgum niðri?

Líkt og fram hefur komið eru bólgur eðlilegt svar ónæmiskerfi- sins þegar ógn steðjar að en við getum með lífsstíl okkar haft mikil áhrif á bólgur í líkamanum. Sterkt ónæmiskerfi er öflugasta vörnin.

Regluleg hreyfing er mikilvæg samhliða góðu mataræði og góðum svefni til að minnka bólgur í líkamanum. Gott viðmið er að líkaminn fari úr hvíldarpúls í æfingarpúls svo maður svitni, að minnsta kosti tvo og hálfan tíma á viku.

Góður nætursvefn ef jafnframt mjög mikilvægur og rannsóknir hafa sýnt fram á að skertur nætursvefn eykur bólgumyndun í líkamanum. Reglulegur svefntími, rólegheit fyrir svefn og minnkun á áreiti á kvöldin eru heilræði við betri svefni. Minna áreiti getur einkum falist í að slökkva á, eða minnka áreiti frá tölvum og símum.

Mataræði er annar þáttur sem getur haft áhrif á bólgur. Líkaminn okkar beitir sínum ráðum til að láta okkur vita hvort fæðan sem við neytum sé nægilega góð eða ekki. Húðin er stærsta líffæri mannsins og margir taugaendar eru í henni og þess vegna birtast í henni margir kvillar sem tengjast streitu og áreiti. Ofsakláði er dæmi um ofnæmisviðbragð við fæðu eða öðru áreiti á ónæmiskerfið sem birtist í húð með mörgum litlum eða stórum kláðablettum. Einkenni þessara bletta hverfa innan nokkurra klukkustunda og birtast oft síðar annars staðar. Samsetning fæðu, næringarskortur, of margar kalóríur, melting- artruflanir og fæðuofnæmi eða óþol endurspeglast allt í húðinni.

En hvernig mat eigum við þá að borða?

Nútímamaðurinn innbyrðir of margar hitaeiningar en er í senn vannærður í þeim skilningi að hann fær of lítið af raunverulegum næringarefnum. Mikilvægt er að skoða gæði þeirra hitaeininga sem við neytum og ættum við að leggja áherslu á næringarþéttni matvælanna, að þau innihaldi trefjar, vítamín, steinefni og plöntuefni. Fitusýrur sem auka bólgumyndun kallast Omega 6 fitusýrur sem eru í kjötmeti og ýmsum jurtaolíum (maísolíu og sojaolíu). Gott er að draga úr inntöku á afurðum sem innihalda Omega 6. Omega 3 fitusýrur eru hinsvegar bólguminnkandi og þær eru í fiski, lýsi og grænu grænmeti. Því er mælt með inntöku á lýsi og að bjóða upp á fisk 2-4 sinnum í viku til að auka „góðu fitusýrurnar“ í líkamanum. Jafnframt er mælt með ríkulegri neyslu á ávöxtum og grænmeti því andoxunarefnin og flavoníðar sem finnast í þeim hafa bólguminnkandi virkni. Notkun lauks, hvítlauks, engifers, karrý og rósmaríns er einnig gott gegn bólgum. Dragið úr sykur- og fituneyslu, einkum dýrafitu og takið C og D vítamín. Sumum hentar jafnframt að forðast kartöflur, tómata, unnar kjötvörur og osta.15 Við val á mat er best að leggja áherslu á góð næringarefni og að forðast tómar hitaeiningar.
Lykillinn að heilsusamlegra lífi felst einkum í því að skoða hvaða vísbendingar líkaminn er að senda okkur. Bólguminni lífsstíll felst í að minnka streitu og regluleg hugleiðsla getur kennt okkur skipta um takt, draga djúpt andann og læra að hlusta á eigin líkama.

Read more

Psoriasisgigt og hreyfing
Hrefna Indriðadóttir sjúkraþjálfi

Hreyfing er nauðsynleg öllum með gigtarsjúkdóma og mestu máli skiptir að velja sér hreyfingu sem manni finnst skemmtileg og reyna að finna leiðir til að aðlaga hana að líðan

Psoriasisgigt

Psoriasisgigt er bólgu- og gigtarsjúkdómur sem er oftast samfara húðeinkennum psoriasis. Í sumum tilvikum koma þó eingöngu fram gigtareinkenni. Einkenni psoriasisgigtar eru ekki einsleit. Algengust eru einkenni í stærri liðum, sérstaklega í neðri útlimum. Einnig getur psoriasis gigt lagst á smáliði handa og fóta og á úlnliði og eru þá einkenni yfirleitt báðum megin. Enn önnur birtingarmynd psoriasisgigtar eru liðbólgur í spjaldliðum og hrygg. Sjaldgæfasta birtingarmynd psoriasisgigtar er svo P A mutilans þar sem beinvefur eyðist og gerist það aðallega í höndum. Psoriasisgigt fylgja oft festumein, eða bólgur þar sem sinar og liðbönd festast á bein. Einkenni gigtarinnar geta verið sveiflukennd, allt frá vægum einkennum í tímabil þar sem bólgur, verkir og stirðleiki blossa upp.

 

Hreyfing er nauðsynlegt

Aðal umkvörtunarefni fólks með psoriasisgigt eru liðverkir, liðbólgur og stirðleiki. Það kemur því ekki á óvart að fólk með gigtarsjúkdóma hreyfi sig minna en heilbrigðir jafnaldrar. Sumir upplifa hræðslu við að hreyfing auki á verki og þreytu og skemmi jafnvel liði. En ávinningurinn af reglubundinni hreyfingu er gríðarlegur.
Betra er að eiga við verki, liðleiki eykst, vöðvastyrkur eykst og bein styrkjast. Hreyfing getur hjálpað til við þyngdarstjórnun, jafnvægi og samhæfing batna, streita minnkar, fólk sefur betur og upplifir minni þreytu, orka eykst og þol og úthald verður betra.

 

Hvers konar hreyfing er best?

Hreyfing þarf helst að byggjast upp á 4 þáttum:

Liðleikaþjálfun – er ætluð til þess að hjálpa til við að viðhalda eða bæta hreyfanleika í liðum. Hægt er að hreyfa endurtekið í gegnum liðferil til þess að liðka eða teygja vöðvana. Liðferilsæfingar að kvöldi geta bætt svefn og dregið úr morgunstirðleika og liðferilsæfingar að morgni geta hraðað því að morgunstirðleiki líði hjá.

Styrkjandi æfingar – styrkari vöðvar styðja betur við liði og minnka álag á liðina. Einnig hafa þær jákvæð áhrif á beinþéttni og gera allar almennar athafnir auðveldari. Nýleg rannsókn, þar sem fólk með psoriasis gigt fór í 12 vikna styrktarþjálfun, sýndi fram á minni virkni sjúkdómsins eftir 12 vikur.

Þolþjálfun – bætir virkni hjarta, lungna og vöðva. Æfingar sem nota stóru vöðva líkamans á endurtekinn og taktfastan hátt og hækka púls. Meðalþungt álag er öruggt og áhrifaríkt og gott er að miða við að hægt sé að tala eðlilega á meðan þjálfun stendur.

Líkamsvitundaræfingar – eru æfingar sem hafa áhrif á jafnvægi, líkamsstöðu og beitingu, tilfinningu fyrir stöðu liða, samhæfingu og slökun.

 

Hvenær er best að æfa?

Með því að finna hvenær hentar hverjum og einum best að æfa verður auðveldara að byggja upp vana og upplifa vellíðan við hreyfingu. Sé morgunstirðleiki vandamál er oft gagnlegt að gera eingöngu liðferilsæfingar á morgnana.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með því að æfa með meðal álagi í 150 mínútur á viku fyrir fólk á aldrinum 18-64 ára en ef þreyta er vandamál má brjóta æfingatíma upp yfir daginn í 2-3 tíu mínútna lotur til þess að byrja með. Best er að gera ekki kröftugar æfingar 2 tímum fyrir svefn, hins vegar geta liðferils- æfingar og slökun hjálpað og haft jákvæð áhrif á svefngæði.

Ef þreyta er vandamál er gott að skoða hvaða daga vikunnar er minnst álag og æfa þá helst á þeim dögum.

 

Hvaða þjálfun er best?

Mestu máli skiptir að velja sér hreyfingu sem manni finnst skemmtileg og reyna að finna leiðir til að aðlaga hana að líðan. Í sjúkdómsversnun þarf oft að minnka álag en samt er nauðsynlegt að halda einhverri virkni. Sumum hentar hópþjálfun. Yoga, pilates og tai chi eru dæmi um æfingar sem bæta liðleika og líkamsvitund og valda litlu álagi á liði. Æfingar í vatni henta mörgum, þar er einnig unnið með liðleika og styrk og álag á liði mun minna en á þurru landi. Á höfuðborgarsvæðinu og kannski víðar er boðið upp á æfingar í innilaugum sem eru heitari en hefðbundnar sundlaugar. Ganga og hjólreiðar auka þol og hægt er að sækja líkamsræktarstöðvar og fara þar í þolþjálfunartæ- ki eins og hjól, gönguband og fjölþjálfa og gera svo styrkjandi æfingar í tækjum eða með laus lóð. Hægt er að byggja upp þol og styrk með því að æfa oftar í viku, æfa lengur í senn eða auka smám saman ákefð og þyngd.

 

Annað til að hafa í huga

Engir tveir eru eins og líðan og einkenni hvers og eins eru breytileg. Það er gott að byrja hreyfingu í samráði við sjúkraþjálf- ara og það skiptir máli að gott samstarf sé milli þeirra sem koma að meðferð viðkomandi. Það getur verið yfirþyrmandi að greinast með langvinnan sjúkdóm eins og psoriasisgigt og góð fræðsla er nauðsynleg. Kvíði og þreyta geta verið mjög hamlandi þættir og þá er nauðsynlegt að byrja rólega og upplifa sig öruggan í þjálfun og vinna sig upp hægt og rólega. Það er eðlilegt að finna fyrir vægum óþægindum eftir æfingar, sérstaklega ef fólk er nýbyrjað í hreyfingu eða ef það hefur aukið ákefð eða þyngd í æfingum. Ef verkir aukast í lengri tíma eftir æfingu þarf að endurskoða æfing- aráætlun og skoða hvernig er hægt að aðlaga æfingar betur að líkamlegu ástandi.

Read more

Fordómar, fegurð og hið óvenjulega
Eftir Herthu Richardt

„Af hverju lítur húðin á þér svona út?“
Spyrjandinn er lítil stúlka sem starir á mig í sturtuklefanum í sundi. Af hverju ertu með bletti.“Það er augljóst að ekkert nema einskær forvitni liggur að baki spurningunni. Líklega hefur hún aldrei séð slíkt áður. Af því að húðin á mér er bara svona,“ svara ég. „Ég er svolítið eins og blettatígur.“Stelpan starir enn og forvitin endurtekur hún spurninguna. Móðir hennar grípur inn í og segir að fólk sé ólíkt og að þetta sé nú bara fal- legt. Hið óvenjulega og jafnvel undarlega getur nefnilega verið fallegt. Það er lærð hugmynd að svo sé ekki. Frá örófi alda hafa verið uppi ólíkar en ávallt ákveðnar hugmyndir um útlit og hvað telst æskilegt og aðlaðandi.
Í þokkabót er okkur kennt að hugmyndin, og síðar meir krafan, sé óhagg- anleg og jafnvel greypt í stein. Reyndin er önnur. Hvað þykir fallegt og aðlaðandi hefur alltaf verið í stöðugu ferli umbreytinga. Ólíkir menningarheimar fara fram á ólíka líkamsþyngd, uppi hafa verið menningarhópar þar sem svertar tennur þykja aðlaðandi sem og litlir og reyrðir fætur eða svo nett mitti að konur létu fjarlægja rifbein til að minnka mittismálið, með tilheyrandi áhættu. Forsendurnar eru ólíkar og flóknar og tengjast oft og tíðum umhverfi hvers samfélags fyrir sig og félagslegri stöðu hópa innan þess. Til að mynda þykir fallegt að vera ljós á hörund í Indlandi, og má rekja þá hugmynd að miklu leyti til breskra nýlenduherra. Í vestrænum löndum er einnig fylgni á milli þess að þykja aðlaðandi og vera með hærri fituprósentu þegar lítið er um mat og svo öfugt á tímum góðæris. En hópar og samfélög breytast og hugmyndin um hverslags útlit þykir eftir- sóknarvert fylgir strauminum en mótar hann líka. Stundum þarf að hrófla vísvitandi við farvegi hugmynda þegar gildandi krafa er ekki heilbrigð og jafnvel skemmandi og skerðir lífsgæði þeirra hópa sem hún beinist að.
Á ég að fela mig?
Undanfarið hef ég verið þakin litlum, rauðum blettum frá toppi til táar vegna skyndilegs áhlaups frá sjálfsofnæminu mínu, psoriasis. Sumir blettir koma ef til vill til með að taka sér endanlega búsetu á holdinu, þrátt fyrir alla pössunarsemina með ljós, krem, stress og mataræði. Þetta vitum við sem þurfum að kljást við þetta. Margt í kringum exem og psoriasis skerðir lífsgæði; kláði, sár, bruni í húð og aðrir duldir fylgikvillar ásamt þeim fjármunum sem fara í umhirðu og meðferðir.
Á eigin skinni
Í sumar upplifði ég fyrst hvernig það er að vera með psoriasis bletti frá toppi til táar og því aldrei þekkt hvernig það er að vera svona til langtíma. Aftur á móti hef ég séð hvernig psoriasis og viðhorf gagnvart því og exemi leikur fólk sem er mér náið grátt. Iðulega hef ég sloppið með hæfilegar skellur og stuttar syrpu af skraufþurrum og rauðum höndum.
Í fyrstu fann ég fyrir þeirri kvöð að klæða blettina af mér. Hvað ef öðrum þykir þetta óhuggulegt að horfa á? Verður glápt á mig? Er ekki réttara að hylja blettótt holdið? Þarf ég þá að endurnýja fataskápinn minn? Eftir stuttar vangaveltur hafnaði ég hugmyndinni að hylja mig, sérstaklega með það til hliðsjónar að mögulega væru blettirnir endanleg viðbót við útlit mitt.
Ég tók þá upplýstu ákvörðun að láta samfélagið ekki velja fyrir mig hvernig ég horfði á blettina. Í stað þess að klæða þetta af mér, af einhverri misskilinni tillitssemi við aðra, ákvað ég að halda áfram að klæða mig eins og ég hef ætíð gert; berir leggir í sumarsólinni á Austurvelli og alles. Ég ætlaði ekki að neita húð minni og heilsu um það sólarljós sem hún þarfnast svo sárlega til að halda blettunum og kláðanum í skefjum.
Það er lífsgæðaskerðing að samfélags- leg viðhorf ýti einstaklingnum út í það að hafna áhrifaríkri og ókeypis meðferð sem var aðgengileg fjölmarga sólardaga á nýliðnu sumri. Vissulega mætti ég spurningum og skrítnum augngotum og ég ætla ekki að draga úr því að stundum var það pirrandi. Ég svaraði þeim samt með því að ég væri blettatígur nú eða hlébarði. Blettótt altént og jafnvel flagnandi. Stundum fylgdi nánari útskýring; þetta er bara psoriasis, sjálfsofnæmi.
Án vafa eru einhverjir sem eru fastir í sínu og horfa á einstaklinga með psoriasis og finnst eitthvað varhugavert eða ósmekklegt við að fela ekki ummerkin. Hvort sem hann er meðvitaður eða ómeðvitaður þá tilheyrir slíkur hugsunarháttur fordómum og þekkingarleysi. Ætlunin að baki kemur ef til vill frá góðum stað, en það er engum raunverulegur greiði gerður með því að aðhyllast þá skoðun.
Og hvað svo?

Ég vil breyta því hvernig samfélagið nálgast útbrotin og exemið útlitslega séð, sér í lagi þegar stjórnin sem við höfum yfir einkennunum er oft tak- mörkuð og á köflum engin. Fyrir sjálfa mig og mitt sjálfstraust tala ég enn um blettina á holdinu sem áhugaverða, ef ekki fallega. Húðin á mér er ekki eins og á flestum. Hún er öðruvísi og öðruvísi getur verið fallegt. Úreltir fordómar geta hæglega kostað okkur lífsgæði með orðræðunni einni saman. En þetta er orðræða sem við getum hróflað við, ef ekki umbylt, með umfjöllun. Við getum valið að beina ekki fordómunum gegn okkur sjálfum og við getum valið að fara í þá erfiðisvinnu að uppræta fordómana með upplýsingu.Ég vil byrja á því að breyta orðalaginu og hvernig talað er um psoriasisbletti og exem.

Verum áhugaverð og tökum afstöðu með okkur sjálfum í ljósi þess að mannflóran er afskaplega fjölbreytt. Vissulega mætum við spurningum og ekki eru allar jafn saklausar og hjá lítilli stúlku í sundi. Hún hafði aldrei séð svona manneskju áður en þar sem fordómar samfélagsins höfðu ekki náð tangarhaldi á henni rann útskýringin ljúflega niður enda tók móðir stúlkunnar mjög heilbrigða afstöðu: blettirnir voru ekki ljótir eða stórfurðulegir, þeir voru fallegir. Svolítið öðruvísi auðvitað en fjölbreytileiki er jákvæður.
Útlitsfordómar
Það er ekki orðum aukið að margt þarf að laga í samfélaginu okkar. Útlitsfor- dómar eru einn angi þessa, sérstaklega þar sem þeir valda lífsgæðaskerðingu hvort sem þeir búa innra með okkur sjálfum eða í ytra samfélagi. Þeir verða til þess að fólk leitar ekki eftir þeirri aðstoð sem það þarf og fær ekki rétta aðstoð þegar það gerir það. Sjálfs- traustið og sjálfsmyndin molnar, étandi vanlíðan leggst yfir og áfram má telja. Fyrsta skrefið liggur samt alltaf hjá okkur sjálfum. Við verðum að taka skýra afstöðu með okkur sjálfum, útlitsleg einkenni psoriasis eru hluti af útliti mínu. Af hverju ættum við að fela það sem við höfum enga stjórn yfir og enga rökrétta forsendu til þess að skammast okkar fyrir? Stolt okkar getur hróflað við úreltum viðhorfum. Leyfum okkur að vera áhugaverð og skorum á fordómana, hvort sem þeir búa í brjósti okkar sjálfra eða í orðum annarra. Fegurð er menningarlega mótuð hugmynd og það er í okkar valdi að útlit okkar verði fellt inn í þá mynd. Áhugavert getur nefnilega verið afskaplega fallegt.

 

Read more

Fylgikvillar psoriasis – Sjúkdómar sem er gott að vera vakandi fyrir
Samantekt: Anja Ísabella Lövenholdt

Fólk með psoriasis í húð og liðum er í aukinni hættu á að þróa með sér langvinna fylgisjúkdóma. Orðið fylgisjúkdómur þýðir í raun sjúkdómur sem kemur í kjölfar annars sjúkdóms. Áætlað er til að mynda að 30% þeirra sem fá psoriasis í húð fái psoriasis liðagigt. Ennfremur er fólk með sjúkdóminn í aukinni hættu að þróa með sér hjarta og æðasjúkdóma, fá svæðisgarnabólgu, þjást af offitu, fá sumar tegundir af krabbameini og kljást við andleg veikindi.

Beinþynning

Beinþynning einkennist af því að beinþéttni eða beinmagn minnkar. Sumir sjúkdómar hafa áhrif á kalkbúskapinn og geta valdið beinþynningu. Þeirra á meðal eru liðagigt og langvinnir meltingar- eða lifrarsjúkdómar. Lyf geta einnig haft áhrif á beinþéttni og sykursterar eins og prednisolon sem notað er við asthma og bólgusjúkdómum er eitt þeirra lyfa sem er talið geta valdið beinþynningu. Rannsókn frá árinu 2014 staðfesti mikil tengsl á milli sjúkdómanna psoriasis og beinþynningar. Hátt hlutfall þeirra sem voru með psoriasis reyndust vera með beinþynningu.

Crohns sjúkdómur

Þeir sem eru með psoriasis eru í aukinni hættu á að fá bólgusjúkdóma í þörmum. Þar á meðal er svokallaður crohns sjúkdómur sem hefur verið nefndur á íslensku svæðisgarnabólga. Chrohns er langvinnur ólæknandi bólgusjúdómur sem herjar yfirleitt á ristilinn eða neðri hluta smáþarma. Sjúklingurinn fær slæm tímabil sem einkennast af hita, kviðverkjum, niðurgangi og sjúkdómurinn getur haft þau áhrif að sjúklingurinn megrast. Þess á milli hefur sjúklingurinn lítil eða engin einkenni af sjúkdómnum. Svæðisgarnabólga veldur bólgu- breytingum þar sem hann er í þörmum og veldur sárum sem geta stundum leitt til mikilla blæðinga. Þegar þau gróa myndast ör sem geta leitt til þrenginga í þörmum.

Hjarta- og æðasjúkdómar

Fólk með psoriasis er í aukinni hættu á að fá hjarta -og æðasjúkdóma. Samkvæmt einni rannsókn eru þeir sem eru með alvarleg einkenni af psoriasis 58% líklegri til að fá hjarta- sjúkdóma en 43% líklegri til að fá heilablóðfall.

Krabbamein

Nokkrar rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk með psoriasis og psoriasis
gigt er í aukinni hættu á fá ákveðnar tegundir krabbameins, svo sem eitlaæxli og húðkrabbamein. Niðurstöður yfirgripsmikillar rannsóknar sem gerð var í Taiwan um áhættuþátt þess að psoriasissjúklingar fái krabbamein leiddi í ljós á þrátt fyrir að psoriasis sjúklingar séu

í meiri hættu á að fá krabbamein er talið að UVB ljósameðferð auki ekki hættuna, heldur þvert á móti minnki líkurnar á að psoriasis sjúklingar fái krabbamein. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að engin ein meðferð eykur hættuna á krabbameini, sem bendir til þess að sjúkdómurinn sjálfur veki áhættuna.

Lifrarsjúkdómar

Fólk með psoriasis í húð og lið- um er í aukinni hættu á að þróa með sér fitulifrarkvilla án áfengis- sem kallast NAFLD (nonalcoholic fatty liver disease). Í einni rannsókn frá árinu 2009 kom í ljós að einstaklingar með NAFLD voru yfirleitt með hátt PASI gildi* óháð því hvað þau voru búin að vera lengi með psoriasis, aldri, kyni, líkamsbyggð og áfengisneyslu.
*PASI gildi stendur fyrir Psoriasis Area and Severity Index og felur í sér aðferð sem notuð er til að meta útbreiðslu, roða og þykkt psoriasis útbrota.

Lithimnubólga

Lithimnubólga er bólga í miðjulögum augans sem samanstendur af lithimnu (iris), æðahimnu (choroid) og brárkleggja (cilliary body) sem framleiðir augn- vökvann. Psoriasissjúklingar eru í aukinni hættu á að fá lithimnubólgu samkvæmt ný- legum rannsóknum. Yfirleitt þarf sérstaka meðferð við einkennum lithimnubólgu.

Offita

Mikil tengsl eru á milli psoriasis og offitu. Fólk með alvarleg einkenni af psoriasis gigt er í enn meiri áhættuhópi, en samkvæmt nýlegri rannsókn greindust 44% psoriasis- sjúklinga, með offitu. Notaður er líkamsþyndarstuðull (BMI) við skilgreiningu á offitu þar sem formúlan (þyngd/hæð2) er notuð til að meta hvort viðkomandi sé of þungur. Rannsóknir sýna að það að léttast getur minnkað einkenni psoriasis.

Sykursýki

Psoriasissjúklingar eru í aukinni hættu á að fá týpu 2 af sykursýki samkvæmt rannsókn frá árinu 2012. Týpa 2 af sykursýki er að mestu áunnið heilsufarsvandamál og orsakast af því að þegar framleiðsla insúlíns í líkamanum er ekki nægilega mikil. Einkenni sykursýkis eru þorsti, þreyta, tíð þvaglát, lystar- leysi og þyngdartap, sýkingar í húð og slímhúð og kláði umhverfis kynfæri.

Þunglyndi og kvíði

Psoriasis í húð og liðum getur valdið fólki mikilli andlegri vanlíðan og getur einnig haft áhrif á sjálfstraust. Rannsókn sem birt var í Journal of Rheumatology í maí 2014 sýnir fram á að fólk með psoriasis gigt er í meiri hættu á að verða fyrir þunglyndi og kvíða en þeir sem eru einungis með psoriasis í húð. Þar kom fram að 36,6% þátttakenda með psoriasis gigt, þjáðust af kvíða á meðan 22,2 þjáðust af þunglyndi. Rannsóknir sýna einnig að meðhöndlun psoriasis getur létt einkenni þunglyndis.

Read more

Matvælamerkingar – Að lesa og skilja innihaldslýsingar
Eftir Anítu Sif Elísdóttur matvælafræðing

Þegar við verslum í matinn er mikilvægt að við séum meðvituð um það sem við setjum í innkaupa- kerruna. Bragð, útlit og verð hafa áhrif á matinn sem við veljum en ekki er síður mikilvægt að huga að næringarsamsetningu vörunnar. Grunnurinn að því að upplýsa neytendur um samsetningu og holl- ustugildi matvæla eru upplýsingar um innihaldsefni og næringargildi.
Ef við treystum okkur ekki í að skilja þessar upplýsingar, geta hollustu- merkingar verið mikil einföldun og auðveldað okkur skynsamlegt val.

Innihaldslýsing

Það er almennt skylt að merkja matvæli með innihaldslýsingu. Hún segir til um samsetningu vörunnar. Í henni þarf að tilgreina öll hráefni, aukaefni og önnur efni sem eru notuð til að búa matvöruna til, í röð eftir minnkandi magni eins og þau eru not- uð við framleiðslu vörunnar. Ef sykur er meðal þeirra hráefna sem eru talin fyrst upp má draga þá ályktun að ekki sé um hollustuvöru að ræða. Hins vegar er vert að hafa í huga að við- bættur sykur er ekki einungis hvítur sykur. Sykur á sér mörg nöfn sem koma oft fram neðarlega í innihalds- lýsingu, til að mynda síróp, maíssíróp, ávaxtasykur (frúktósi) og mólassi svo eitthvað sé nefnt.

Næringaryfirlýsing

Næringaryfirlýsing gefur upplýsingar um orku og magn næringarefna í matvælum, þ.e fitu, kolvetna, próteina, trefja, vítamína og steinefna og miðast við innihald í 100 g eða 100 ml af vöru. Fram til þessa hefur fram- leiðendum verið frjálst að merkja matvæli með næringaryfirlýsingu, nema með ákveðnum undantekning- um, t.d þegar næringar- eða heilsu- fullyrðingar eru á umbúðum. En samkvæmt nýrri alþjóðlegri reglugerð (1294/2014) um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda er skylt að hafa næringaryfirlýsingu á flestum forpökkuðum matvælum.

Ólík hugtakanotkun og villandi upplýsingar
Merkingar matvæla hafa meðal annars það markmið að hjálpa neyt- endum að velja á milli vara og vernda heilsu þeirra og því er afar mikilvægt að þær séu réttar og vel framsettar. Upplýsingar um næringarsamsetn- ingu hafa hins vegar oft á tíðum verið óskýrar og villandi fyrir neytendur, t.d þegar verið er að geta til um magn kolvetna og viðbætts sykurs í nær- ingaryfirlýsingu. Í sumum tilvikum hafa framleiðendur notað hugtakið „súkrósi“ þegar verið er að tilgreina magn viðbætts sykurs eða „ein– og tvísykrur“ sem getur þá bæði átt við um náttúrulegan eða viðbættan sykur. Fyrir meðal Jón sem er lítið að sér í næringarfræði geta ólík hugtök yfir sama hlutinn valdið ruglingi en með nýju reglugerðinni ætti það að verða úr sögunni.

Hvað segir nýja reglugerðin um næringaryfirlýsingu Samkvæmt nýju reglugerðinni verða upplýsingar um næringargildi að vera mun ítarlegri heldur en verið hefur og settar fram eftir stöðluðu formi. Reglurnar gera meiri kröfur en áður hvað varðar hugtakanotkun og upp- setningu orku- og næringarefna.

Í næringaryfirlýsingu er nú skylt að tilgreina eftirfarandi atriði í þessari röð: orka, fita, mettuð fita, kolvetni, sykur- tegundir, prótein og salt (sjá töflu 1).

Framleiðendum er einnig frjálst að bæta við einu eða fleiri af eftirfarandi atriðum: einómettuðum fitusýrum, fjölómettuðum fitusýrum, fjölalka- hóli, sterkju, trefjum og ákveðnum vítamínum og steinefnum og þáí þessari röð (sjá töflu 2).


Það er mikilvægt að matvælaframleið- endur séu samstíga hvað varðar hug- takanotkun til að koma í veg fyrir vill- andi upplýsingar. Eins og sjá má í töflunum verður hér eftir einungis notast við hugtakið „sykurtegundir“
í staðinn fyrir sykur, sem felur þá í sér allar ein – og tvísykrur sem finnast í matvælum. Þessar breyttu reglur munu stuðla að auknum skilningi neytenda og auðvelda þeim að bera saman vörur.

Hvað merkir skráargatið?

Skráargatið er opinbert samnorrænt merki sem notað er á umbúðir matvæla og segir til um hollustugildi þeirra. Skráargatið hefur verið í notkun í 25 ár á Norðurlöndunum, fyrst í Svíþjóð og síðar í Noregi og Danmörku, en var fyrst innleitt á Íslandi árið 2013.

Með hollustumerkingum eru neyt- endur hvattir til að velja heilbrigðan lífsstíl. Aðalmarkmið skráargatsins er að auðvelda neytendum að velja hollustusamlegri matvörurog á merkið að tryggja að tiltekin vara sé sú hollasta í sínum flokki. Auk þess að vera upplýsandi fyrir neytendur er merkið hvatning fyrir matvælaframleiðendur til að þróa betur samsett matvæli næringar- fræðilega séð og að fjölga hollum matvörum á markaði. Skilyrðin til að notast megi við hollustumerkið er að matvaran þurfi að uppfylla ákveðnar kröfur um magn næringarefna, s.s. meira af trefjum og heilkorni og minna magn af sykri, salti og mett- aðari fitu en aðrar sambærilegar vörur. Þar af leiðandi má segja að matvörur sem bera skráargatsmerkið endurspegli markmið embætti landlæknis hvað varðar aukna neyslu á trefjum og heilkornavörum en minnkaða neyslu á sykri, salti og mettaðri fitu. Til að stuðla að bættri heilsu almennings og auka neyslu á heilsusamlegu mataræði eru neytendur því hvattir til að velja skráargatsmerktar vörur og lesa inni- haldslýsingar, einkum á unninni eða samsettri matvöru.

Read more

Saga psoriasis eftir Birki Sveinsson húðlækni

Psoriasis er líklega meðal þeirra sjúk- dóma sem lengst hefur verið vitað um í Mannkynssögunni. Læknisfræði þróaðist í Mesópótaímu og elstu heimildir eru á steintöflum (e. clay tablets) 1000-3000 árum fyrir Krist- burð. Húðsjúkdómar voru vel þekktir og kallaðir asu og voru lækningar á þeim stundaðar af prestum og spámönnum. Ekkert er þó að finna með vissu um psoriasis í þessum heimildum.

Í Egyptalandi til forna voru samkvæmt Herodetusi læknar fyrir hvert líffæri að heilanum undanskildum þar sem talið var að hann hefði ekkert hlutverk. Í heimildum frá þessum tíma 1500 árum fyrir Krist (Ebers papyrus) er ótal húðsjúkdómum lýst og hugtakið húðflögnun kemur oft fyrir en ekki er hægt að greina þar einstaka sjúkdóma. Grikkir til forna notuðu orðið lepra um flagnandi húðkvilla. Þeir notuðu psora til að lýsa húðkvillum með kláðaeinkennum.

Heimildir um læknisfræði eru af skornum skammti í ritum gyðinga til forna helst er að þær sé að finna
í Gamla Testamentinu. Í Leviticus er að finna stutta lýsingu á húðsjúkdómi sem kallast zaraath og sumir fræði- menn telja að geti verið psoriasis þó holdsveiki (e. leprosy), vitiligo eða sveppasýkingar komi einnig til greina. Margar tilvitnanir í Biblíunni um leprosy eru líklega um psoria- sis. Í Konungsbók er leprosy lýsing Naaman á húðkvilla þar sem húðin er hvít sem snjór. Líklega er þarna verið að lýsa silfurlituðu hreistri psoriasis skellna.

Í indversku trúarriti Charaka Samita (100 F.K. til 100 E.K.) sem er hluti af Ayurvedic fræði er lýsing á sjúkdómi sem gæti verið psoriasis.

Ímyndið ykkur að húðsjúkdómur skuli talinn svo skelfilegur að þeir sem eru haldnir honum þurfi að bera bjöllu um hálsinn svo allir geti vitað um ferðir þeirra. Þeir sem voru haldnir psoriasis þurftu einnig að matast á aðskildum borðum frá öðrum og klæðast sérstökum fötum til að hylja þykkar húðskellurnar. Bölvun var einnig talin fylgja þessu fólki og í verstu tilfellum voru psoriasis sjúklingar útilokaðir frá samfélaginu og jafnvel brenndir á báli. Þetta var á hinum myrku miðöldum.

Saga húðsjúkdómsins sem við í dag þekkjum sem psoriasis er samofin sögu annarra sjúkdóma svo sem holdsveiki en sjúkdómarnir bera mörg sameiginleg einkenni. Það var þó ekki fyrr en á 19. öld sem psoriasis var aðgreindur frá leprosy.

Hippocrates, faðir vestrænnar læknisfræði lýsti hópi sjúkdóma sem einkennast af hreistrandi húð- breytingum sem hann kallaði lopoi sem er grískt heiti á yfirhúðinni (e. epidermis) líklega eru bæði psoriasis og leprosy í þessum hóp.

Flestir eru sammála um að það hafi verið Aurelius Celsus (25 F.K. – 45 E.K.) sem fyrstur lýsti psoriasis í riti sínu „De re medica“. Þar talar hann um húðsjúkdóm með mismunandi löguðum blettum og hreistri sem fellur af húðinni.

Heitið psoriasis er komið úr grísku en psora þýðir kláði og var fyrst notað af Galen frá Pergamon (133-200 F.K.). Galen var læknir í Rómaveldi og skrifaði mörg rit meðal annars um líffærafræði, lífeðlisfræði, og lyfjafræði.

Lengi vel voru húðsjúkdómar með- höndlaðir af skurðlæknum. Daniel Turner (1667-1741) var skurðlæknir sem lagði stund á rannsóknir á húð- sjúkdómum. Hann gaf út bók 1712 „De morbis cutaneis. A treatise of diseases incident to the skin”. Í henni er frekar óskýr lýsing á psoriasis sem hann kallar „Leprosy of the Greek” til aðskilnaðar frá holdsveiki sem hann kallar „Leprosy of the Arabian”. Hann gerði sér einna fyrstur grein fyrir að krem eða önnur staðbundin meðferð við húðsjúkdómum geti haft áhrif á innri líffæri.

Charles Anne Lorry (1726-1783) sem síðar varð læknir Loðvíks 16 og talinn fyrsti franski húðsjúkdóma- læknirinn, gaf 1777 út bókin „De morbis cvtaneis”. Þessi bók var yfir 700 síður, þar er í fyrsta sinn gerð tilraun til að flokka húðsjúkdóma eftir orsökum og tengslum þeirra við innri líffæri og taugakerfið.

Robert Willan (1757-1812) var sá sem skilgreindi psoriasis sem sér- stakan sjúkdóm hann notaði hins vegar nafnið lepra (Willan’s lepra). Lýsingar hans eru á psoriasis en ekki holdsveiki. Hann lýsti mismunandi formum af psoriasis þ.e. guttae, diffuse, palmaria, unguium, og inveterata. Hann gerði sér grein fyrir að psoriasis byrjar oft á olnbogum og hnjám og dreifir sér í hársvörð og í neglur á tám og fingrum.

Ferdinand Hebra (1816-1880) var austurískur Húðsjúkdómalæknir sem 1841 greindi endanlega psoriasis frá holdsveiki og gerði endurbætur á flokkunarkerfi Willans. Hebra festi nafnið psoriasis í sessi.

Árið 1818 gerði Jean Louis Alibert (1768-1837) sér grein fyrir tengslum liðskemmda og psoriasis sem Pierre Bazin (1807-1878) nefndi arthritis psoriatica 1860. Lýsingar á afbrigðum af psoriasis fylgdu í kjölfarið pustuler generalisata (Zumbusch 1910) og síðar palmo-plantar (Barber-Königs- beck). Sumir höfundar lýstu síðar einkennum psoriasis sem hjálpuðu við greiningu. Meðal þessara höf- unda var Heinrich Köbner (1838- 1904) prófessor í húðlækningum frá Breslau í Póllandi en við hann er Köbners phenomena (psoriasis í ör eða sár) kennt. Hann lýsti fyrstur þessu sérstaka fyrirbæri þar sem psoriasis útbrot koma á húð þar sem hún hefur orðið fyrir áverka. Síðar hefur þetta einkenni verið notað til að rannsaka psoriasis á frumstigi.

Heinrich Auspitz (1835-1886) nemandi Hebra lýsti punktblæð- ingum þegar hreistrið er tekið af psoriasis blettum. Þetta fyrirbæri
er kallað Auspitz sign þó svo D. Turner, R. Willan og F. Hebra hafi allir veitt þessu athygli áður. Auspitz rannsakaði psoriasis í smásjánni og sum heiti sem notuð eru enn í dag svo sem parakeratosis (sem lýsir frumukjörnun í hornlaginu sem ekki eiga að vera þar) og acantosis (þykknun yfirhúðarinnar) eru frá honum komin. Í lok 19. aldar er smásjármynd (vefjameinafræði) psoriasis lýst í smáatriðum, að því verki komu auk A. Hebra, Unna og William Munro. Munro lýsti 1898 litlum graftarkýlum (e. microa- bcessum) í yfirhúðinni með hvítum blóðkornum (e. neutrophil). Þessi kýli eru einu breytingarnar í psoriasis smásjármyndinni sem eru sérkennandi fyrir psoriasis.Það var svo á seinni hluta 20. aldar sem sýnt var fram á að yfirhúðin
í psoriasis inniheldur 25 falt meiri frumuskiptingar en eðlileg húð. Rannsóknir Weinstein 1968 sýndu að endurnýjunartími yfirhúðarfrumna í psoriasis er styttur úr 27 dögum eðlilegrar húðar í 4 daga psoriasis húðar.
Á 20. ölld gera menn sér svo grein fyrir því að psoriasis sé erfðasjúkdóm- ur og að umhverfisþættir svo sem sýkingar og streita geti haft áhrift á sjúkdóminn og stundum jafnvel komið honum af stað.

Undanfarna áratugi hafa rannsóknir á tengslum psoriasis og ónæmiskerfisins verið áberandi. Þar hefur komið fram að ræsing ákveðinna ónæmisfrumna svo kallaðar T-frumur getið verið undanfari sjúkdómsins. Þó mikill fjöldi meðferða sé til staðar er erfitt að meðhöndla psoriasis vegna langvinns eðlis sjúkdómsins. Engin lækning við psoriasis er til staðar í dag en fjöldi meðferða hafa verið þróaðar sem halda einkennum sjúkdómsins í skefjum. Stöðug þróun er í lyfjum og öðrum meðferðaformum við psoriasis. Mikill árangur hefur náðst síðan um síðustu aldamót með tilkomu líftæknilyfja (e. biologics).

Heimildir

Menter, Alan; Stoff, Benjamin (2011). Psoriasis. Manson Publishing.

Löser, Christoph; Plewig, Gerd; Burgdorf, Walter (2013). Springer Vorlag.

Pantheon of Dermatology: Outstanding Historical Figures.

Read more

Tímarit Spoex 2017

Loksins er komið að útgáfu tímarits Spoex. Það er gefið út árlega samhliða alþjóðadegi psoriasis sem haldinn verður hátíðlega á morgun 31. október, sjá dagskrá hér að neðan. Blaðið verður sent með póstinum síðar í dag til skráðra félagsmanna.

Ritstjóri blaðsins þetta árið er Áslaug Baldursdóttir en hún sá jafnframt um uppsetningu blaðsins líkt og í fyrra. Spoex kann henni bestu þakkir fyrir vel unnin störf og afar fallegt blað.
Líkt og síðast var lögð áhersla á mikla breidd í efnisvali þar sem fjallað er um psoriasis í húð og liðum og exem.
Við viljum endilega heyra hvað ykkur finnst um blaðið og ef þið hafið hugmyndir að efnistökum fyrir næsta blað eða aðrar ábendingar endilega sendið okkur línu á skrifstofa@spoex.is

Félagsmenn fá blaðið sent í pósti þar sem farið er eftir skráðu heimilisfangi samkvæmt þjóðskrá. Hafi það einhverra hluta vegna ekki borist er hægt að nálgast eintak hjá okkur á göngudeild Spoex í Bolholti 6, 105 Reykjavík eða hafa samband í 588-9620.

Read more

Vegna atriðis í áramótaskaupi RÚV

Stjórn Samtaka psoriasis- og exemsjúklinga óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og vill af gefnu tilefni koma eftirfarandi á framfæri:

Venja er í áramótaskaupi allra landsmanna að gera gys að nafntoguðum einstaklingum af margskonar ástæðum. Þetta eru einstaklingar sem hafa verið áberandi í þjóðfélagslífinu og eiga eitt sameiginlegt. Gert er gys að verkum þeirra.

Mörgum kann að þykja fyndið að hlæja að þeim sem eru með líkamlega ágalla, líkt og exem, en eitt skal áréttað.

Þeir sem þjást af sjúkdómum finnst ekki gaman að vera með þá og upplifa mikla fordóma og skilningsleysi annarra sem hafa ekki sjúkdóminn. Það að vera með psoriasis og exem er erfitt og margir hverjir finna fyrir kvíða eða þunglyndi í kjölfar slíkra einkenna.

Stjórn Spoex harmar þá málsmeðferð sem exemsjúklingar fengu í áramótaskaupinu og telur það ekki vera í anda þess samfélags sem síðustu samfélagslegu byltingar hafa boðað, þar sem hver og einn er hvattur til að vera stoltur, óháð líkamsgerð. Samfélag án allra fordóma er eitthvað sem við öll stefnum að.

Read more

Aðalfundur Spoex

Vilt þú hafa áhrif á félagsstarf Spoex?

Aðalfundur Spoex verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 17.apríl, í Víkingasal 6 á Hótel Natura, Nauthólsvegi, 101 Reykjavík.
Hefðbundin dagskrá samkvæmt lögum Spoex. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Fundarhöld hefjast kl. 17:00

Óskað er eftir framboðum í stjórn og sæti formanns Spoex

Við hvetjum alla til að mæta og hafa áhrif!

Read more

Úrslit aðalfundar 2018

Aðalfundur Spoex var haldinn í gærkvöldi og kosið var um nýjan formann auk 3 aðalmanna og tveggja varamanna.

Ingibjörg Eyþórsdóttir sem var áður varamaður í stjórn var kosin formaður Spoex til næstu tveggja ára.Hún er hjúkrunarfræðingur MS og hefur komið að ýmissi frumkvöðlastarfsemi innan heilbrigðisgeirans eins og við uppbyggingu Klíníkurinnar í Ármúla og Köru connect.

Ingvar Ágúst Ingvarsson fráfarandi formaður hætti í stjórn Spoex en situr áfram sem aðalmaður í stjórn alþjóðlegu psoriasissamtanna IFPA fram til júní 2019. Ingvar hefur sinnt starfi formanns síðustu 4 árin og var þar áður aðalmaður í stjórn Spoex til margra ára. Hann hefur sinnt mikilvægu starfi einkum sem tengiliður okkar við erlend psoriasis félög.

Erna Arngrímsdóttir ein af stofnmeðlimum Spoex hætti í gær í stjórn Spoex eftir fjölmörg ár. Hún hefur ljáð félaginu krafta sína á sviðum rannsókna og með skrifum sínum bæði í fjölmiðlum og tímaritum Spoex í gegnum árin.

Ingvari og Ernu voru færðar þakkir fyrir óeigingjarnt starf þeirra í þágu félags Spoex og eiga þau alltaf heimangegnt til okkar aftur.

Ragnheiður Eyjólfsdóttir formaður UngSpoex var áður varamaður og fór upp í stöðu aðalmanns.

Gautur Sturluson og Sveinn Óskar Hafliðason voru endurkjörnir aðalmenn í stjórn.

Tveir nýjir kandídatar komu inn í stjórnina í stöður varamanna.
Sólveig Margrét Þórsdóttir og Þórdís Guðný Magnúsdóttir.

Meðfylgjandi mynd er af nýrri stjórn Spoex en á myndina vantar Gaut Sturluson sem var fjarverandi.

Við þökkum öllum kærlega fyrir komuna og óskum nýrri stjórn til hamingju. Gangi ykkur vel!

Nýrri stjórn Spoex en á myndina vantar Gaut Sturluson sem var fjarverandi.

Erna Arngrímsdóttir hætti í stjórn eftir ötult starf í áratugi

Ingvar Ágúst Ingvarsson hætti sem formaður Spoex eftir 4 farsæl ár og fleiri sem aðalmaður í stjórn

Ingibjörg Eyþórsdóttir er nýr formaður Spoex

Sólveig Margrét Þórsdóttir er nýr varamaður í stjórn

Fráfarandi stjórn Spoex

Þórdís Guðný Magnúsdóttir er nýr varamaður í stjórn

 

Read more