Exem er húðsjúkdómur sem lýsir sér einna helst í roða, þurrki og kláða í húð. Það er algengast hjá börnum en getur komið fram hjá hvaða aldurshóp sem er. Exem, eins og sjúkdómurinn kallast á daglegu máli, er notað sem heiti yfir nokkrar tegundir húðsjúkdóma og má hér nefna atópískt (AD) exem sem er langalgengasta tegundin og getur verið alvarlegur og mjög langvinnur. Þegar talað er um exem er yfirleitt átt við þá tegund en einnig má nefna hér handarexem og snertiexem. Einkenni eru mismunandi milli einstaklinga og tegunda og hægt er að vera með fleiri en eina tegund exems. Í allri umfjöllun hér á eftir verður ekki gerður greinarmunur á milli tegunda, heldur fjallað að mestu leyti um AD tegundina. Það er vissulega mikilvægt að læknir greini þá tegund sem einstaklingur er með því meðferðir geta verið aðeisn mismunandi og einnig er það mismunandi hvað það er sem einstaklingurinn þarf að forðast, gera og ekki gera.
Einkenni og tegundir exems
Exem er húðsjúkdómur í ystum lögum húðarinnar. Heilbrigð húð viðheldur raka og ver húð fyrir bakteríum en húð exemsjúklinga er þurrari en vanalega, hún er „gljúpari“ sem veldur því að rakatap verður meira og að sama skapi eiga utanaðkomandi efni greiðari leið inn í húðina.
Algengustu einkennin eru þurr húð, mikill kláði sérstaklega að næturlagi, rauðir eða brúngráir flekkir sem geta birts m.a. á höndum, fótum, ökklum, augnlokum, bringu, hálsi, hnéspótum og olnbogabótum. Að auki geta sést vökvafylltar blöðrur og sprungur í húð.
Orsakir, áhættu- og áhrifaþættir
Orsakir exems eru í mörgum tilvikum óþekktar en geta verið erfðafræðilegar eða utanaðkomandi. Helsti áhættuþáttur er fjölskyldusaga um exem, ofnæmi, heyofnæmi eða asmi. Hjá börnum getur fæðuofnæmi haft áhrif á að það þrói með sér exem. Ef annað foreldri hefur exem, asma eða heyofnæmi þá eru 50% líkur á að barn fá alla vega einn af þeim sjúkdómum og exem virðist vera algengara í þéttbýli og þróuðum löndum. Áhrif til hins verra hafa þættir eins og sterkar sápur, kuldi, ofnæmi fyrir efnum sem koma í snertingu við húðina.