Algengt er á áramótum eða öðrum stórum kaflaskilum að setja háleit markmið um nýjan lífsstíl. Bætt útgáfa af sjálfum sér sem mun sannarlega ekki falla aftur í freistni heldur frelsast að eilífu í betra formi og með bættu mataræði.

Þetta eru sannarlega góð fyrirheit og það er löngu sannað að bættur lífsstíll  hefur jákvæð áhrif á psoriasis, gigt og exem. Hreyfing, góður svefn og betra mataræði.

En hvert er þá vandamálið?

Það er í sjálfu sér enginn vandi – en hætta á því freistast til að fljúga of nálægt sólinni eins og Íkarus gerði forðum.

Bætt lífsgæði eru alltaf af hinu góða en gott er að huga að betra er að taka hænuskref og setja sér raunhæf markmið. 

Hafi maður ekki stundað neina hreyfingu af ráði áður -er fullkomlega óraunhæft að ætla sér að mæta 4-5 sinnum í viku í ræktina, eða að ætla sér að vera í 2-3 tíma í hvert skipti.

Þá eru færri skipti eða stuttar æfingar sem maður getur sinnt, mun fýsilegri kostur.

Það sama á við um mataræði. Margir fara á svokallaða kúra á svona tímamótum. Lágkolvetna, 5:2 fasta, vegan, sykurleysi… Kúrarnir eru margir og hafa líklegast flestir góð áhrif. En hættan við að stökkva í djúpu laugina og byrja svart/hvítt á erfiðum kúr, er sú að maður haldi mataræðið ekki til streitu og gefist fljótlega upp í stað þess að gæta alltaf meðalhófs í mat og drykk.

Okkar meðmæli eru því þessi:

Gangið hægt um gleðinnar dyr og njótið þess að vera til, meðvituð um að líkaminn er musteri sem verður að hlúa að.