Opnunartími göngudeildar Spoex yfir hátíðarnar

Okkur er umhugað um skjólstæðinga okkar og bjóðum því upp á hefðbundinn opnunartíma á göngudeildinni dagana föstudaginn 27. desember og mánudaginn 30.desember næstkomandi.

Hvíld starfsfólks okkar er líka mikilvæg og því er göngudeildin lokuð mánudaginn 23. desember og „rauða daga“ yfir hátíðarnar.

Við bjóðum ykkur velkomin á nýju ári samkvæmt hefðbundnum opnunartíma fimmtudaginn 2.janúar 2020.

Stjórn og starfsfólk Spoex vill þakka fyrir öll brosin og ánægjulegu stundirnar á árinu sem er að líða.

Megi ljós og friður fylgja ykkur inn í nýjan áratug.

Read more

Hvað er Spoex og hvað gerir það?

Spoex stendur fyrir Samtök psoriasis- og exemsjúklinga. Samtökin eru staðsett í Bolholti 6, 105 Reykjavík en starfa fyrir sjúklinga allsstaðar á Íslandi.

Hlutverk Spoex er í raun tvíþætt því Spoex er félag sem starfar í þágu félagsmanna sinna og hins vegar rekur félagið göngudeild, staðsetta í Bolholti þar sem skrifstofan er einnig staðsett.

Það er 7 manna stjórn sem er ábyrg fyrir starfi Spoex en í hennar umboði starfar skrifstofustjóri sem sér um allan daglegan rekstur.

Á skrifstofunni fer fram mikið og þarft starf; halda þarf utan um málefni er varða félagsmenn og sinna bókhaldi og erlendu samstarfi, enda er Spoex aðili að alþjóðlegu psoriasis samtökunum IFPA og Nordpso sem eru samtök norrænna psoriasisfélaga. Einnig fara samskipti við aðra aðila í gegnum skrifstofuna. Þar má nefna fréttaveitur, ráðuneyti og önnur félagasamtök eins og ÖBÍ sem SPOEX er aðili að.

Fræðslufundir og fyrirlestrar eru haldnir á vegum félagsins og þar ber helst að nefna metnaðarfulla dagskrá á alþjóðadegi psoriasis sem er haldinn 29. október ár hvert. Félagið gefur út tímarit einu sinni á ári og stutt fréttabréf fyrir fólk skráð á póstlista.

Á göngudeild Spoex er hlýlegt andrúmsloft og vel tekið á móti gestum. Þar er veitt ljósameðferð, fræðsla og stuðningur við sjúklinga. Þar er tekið við skjólstæðingum sem hafa fengið tilvísun frá húðlækni um ljósameðferð en kjósi skjólstæðingar að koma í Bolholt í meðferð þarf að biðja húðlækni sérstaklega um það.

Læknir göngudeildarinnar er Birkir Sveinsson. Birkir kemur reglulega á deildina og sinnir sjúklingum.
Tímapantanir fara í gegnum móttöku göngudeildar í síma 588-9620 eða með tölvupósti á gongudeild [hja] spoex.is

Read more