Fólk með
psoriasis í húð og liðum er í aukinni hættu á að þróa með sér langvinna fylgisjúkdóma.
Orðið fylgisjúkdómur þýðir í raun sjúkdómur sem kemur í kjölfar annars
sjúkdóms. Áætlað er til að mynda að 30% þeirra sem fá psoriasis í húð fái
psoriasis liðagigt. Ennfremur er fólk með sjúkdóminn í aukinni hættu að þróa
með sér hjarta og æðasjúkdóma, fá svæðisgarnabólgu, þjást af offitu, fá sumar
tegundir af krabbameini og kljást við andleg veikindi.
Beinþynning
Beinþynning
einkennist af því að beinþéttni eða beinmagn minnkar. Sumir sjúkdómar hafa
áhrif á kalkbúskapinn og geta valdið beinþynningu. Þeirra á meðal eru liðagigt
og langvinnir meltingar- eða lifrarsjúkdómar. Lyf geta einnig haft áhrif á
beinþéttni og sykursterar eins og prednisolon sem notað er við asthma og
bólgusjúkdómum er eitt þeirra lyfa sem er talið geta valdið beinþynningu.
Rannsókn frá árinu 2014 staðfesti mikil tengsl á milli sjúkdómanna psoriasis og
beinþynningar. Hátt hlutfall þeirra sem voru með psoriasis reyndust vera með
beinþynningu.
Crohns sjúkdómur
Þeir sem eru með
psoriasis eru í aukinni hættu á að fá bólgusjúkdóma í þörmum. Þar á meðal er
svokallaður crohns sjúkdómur sem hefur verið nefndur á íslensku
svæðisgarnabólga. Chrohns er langvinnur ólæknandi bólgusjúdómur sem herjar
yfirleitt á ristilinn eða neðri hluta smáþarma. Sjúklingurinn fær slæm tímabil
sem einkennast af hita, kviðverkjum, niðurgangi og sjúkdómurinn getur haft þau
áhrif að sjúklingurinn megrast. Þess á milli hefur sjúklingurinn lítil eða
engin einkenni af sjúkdómnum. Svæðisgarnabólga veldur bólgubreytingum þar sem
hann er í þörmum og veldur sárum sem geta stundum leitt til mikilla blæðinga.
Þegar þau gróa myndast ör sem geta leitt til þrenginga í þörmum.
Hjarta -og æðasjúkdómar
Fólk með psoriasis er í aukinni hættu á að fá hjarta -og æðasjúkdóma. Samkvæmt
einni rannsókn eru þeir sem eru með alvarleg einkenni af psoriasis 58% líklegri
til að fá hjartasjúkdóma en 43% líklegri til að fá heilablóðfall.
Krabbamein
Nokkrar
rannsóknir hafa leitt í ljós að því að
fólk með psoriasis og psoriasis gigt er í aukinni hættu á fá ákveðnar tegundir
krabbameins, svo sem eitlaæxli og húðkrabbamein. Niðurstöður yfirgripsmikillar
rannsóknar sem gerð var í Taiwan um áhættuþátt þess að
psoriasissjúklingar fái krabbamein leiddi í ljós á þrátt fyrir að psoriasis
sjúklingar séu í meiri hættu á að fá krabbamein er talið að UVB ljósameðferð
auki ekki hættuna, heldur þvert á móti minnki líkurnar á að psoriasis sjúklingar fái krabbamein. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að engin ein
meðferð eykur hættuna á krabbameini, sem bendir til þess að sjúkdómurinn
sjálfur veki áhættuna.
Lifrarsjúkdómar
Fólk með psoriasis í húð
og liðum er í aukinni hættu á að þróa með sér fitulifrarkvilla án áfengis sem kallast
NAFLD (nonalcoholic fatty liver disease). Í einni rannsókn frá árinu 2009 kom í
ljós að einstaklingar með NAFLD voru yfirleitt með hátt PASI gildi* óháð því
hvað þau voru búin að vera lengi með psoriasis, aldri, kyni, líkamsbyggð og
áfengisneyslu.
*PASI gildi stendur fyrir Psoriasis Area
and Severity Index og felur í sér aðferð sem notuð er til að meta
útbreiðslu, roða og þykkt psoriasis útbrota.
Lithimnubólga
Lithimnubólga er
bólga í miðjulögum augans sem samanstendur af lithimnu (iris), æðahimnu
(choroid) og brárkleggja (cilliary body) sem framleiðir augnvökvann.
Psoriasissjúklingar eru í aukinni hættu á að fá lithimnubólgu samkvæmt nýlegum
rannsóknum. Yfirleitt þarf sérstaka meðferð við einkennum lithimnubólgu.
Offita
Mikil tengsl eru á
milli psoriasis og offitu. Fólk með alvarleg einkenni af psoriasis gigt er í enn meiri áhættuhópi, en
samkvæmt nýlegri rannsókn greindust 44% psoriasissjúklinga, með offitu.
Notaður er líkamsþyndarstuðull (BMI) við skilgreiningu á offitu þar sem
formúlan (þyngd/hæð2) er notuð til að meta hvort viðkomandi sé of þungur.
Rannsóknir sýna að það að léttast getur minnkað einkenni psoriasis.
Sykursýki
Psoriasissjúklingar
eru í aukinni hættu á að fá týpu 2 af sykursýki samkvæmt rannsókn frá árinu
2012. Týpa 2 af sykursýki er að mestu áunnið heilsufarsvandamál og orsakast af
því að þegar framleiðsla insúlíns í líkamanum er ekki nægilega mikil. Einkenni
sykursýkis eru þorsti, þreyta, tíð þvaglát, lystarleysi og þyngdartap, sýkingar
í húð og slímhúð og kláði umhverfis kynfæri.
Þunglyndi og kvíði
Psoriasis í húð og liðum getur valdið fólki mikilli andlegri vanlíðan og getur einnig haft áhrif á sjálfstraust. Rannsókn sem birt var í Journal of Rheumatology í maí 2014 sýnir fram á að fólk með psoriasis gigt er í meiri hættu á að verða fyrir þunglyndi og kvíða en þeir sem eru einungis með psoriasis í húð. Þar kom fram að 36,6% þátttakenda með psoriasis gigt, þjáðust af kvíða á meðan 22,2 þjáðust af þunglyndi. Rannsóknir sýna einnig að meðhöndlun psoriasis getur létt einkenni þunglyndis.
–Greinin birtist í Tímariti Spoex árið 2016
Recent Comments