Auglýsum eftir psoriasis sjúklingum til að taka þátt í rannsókn: “Hlutverk LL-37 í psoriasis og tengsl þess við D-vítamín”.
Óskað er eftir sjálfboðaliðum frá 18 ára aldri með staðfesta greiningu á psoriasis til þátttöku í rannsókn á tengslum varnarpeptíðsins LL-37 við meingerð psoriasis.
Leitað er að 20 þátttakendum í rannsókn sem varir í 6 vikur og felur í sér tvær læknisheimsóknir á Húðlæknastöðina, í byrjun og enda meðferðar, og hefðbundna ljósameðferð þess á milli.
Þátttakendur þurfa að vera með greindir með psoriasis og hafa mikla útbreiðslu á útbrotunum. Einnig mega þátttakendur ekki hafa verið á ónæmisbælandi lyfjum eða líftæknilyfjum eða hafa verið í ljósameðferð í 4 vikur áður en rannsókn hefst.
Tilgangur rannsóknarinnar er að fá meiri vitneskju um grunnmeingerð psoriasis og hvernig varnarpeptíðið LL-37 spilar inn í meingerðina. Áhætta af þátttöku felst í mögulegum aukaverkunum vegna ljósameðferðarinnar og óþægindum vegna húð- og blóðsýnatöku.
Fyrir utan hina hefðbundnu læknisheimsókn, mun allur annar kostnaður vegna meðferðarinnar verða þátttakendum að kostnaðarlausu.
Rannsóknin hefur fengið leyfi Vísindasiðanefndar og verður framkvæmd á Húðlæknastöðinni, Smáratorgi 1, Kópavogi í samstarfi við ónæmisfræðideild Landspítalans. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildarinnar (bjornlud@landspitali.is).
Ef þú hefur áhuga á að fá upplýsingar um rannsóknina, vinsamlegast hafðu samband með því að senda tölvupóst á hildusig@landspitali.is eða með því að hringja í síma: 543 5800 / 543 5803 (Hildur).
Tekið skal fram að þeir sem svara auglýsingunni hafa ekki skuldbundið sig til að taka þátt í rannsókninni. Taki þeir þátt, geta þeir dregið sig út úr rannsókninni, án þess að gefa sérstaka ástæðu fyrir ákvörðun sinni.
Recent Comments