Rannsókn: Hlutverk LL-37 í psoriasis og tengsl þess við D-vítamín

Auglýsum eftir psoriasis sjúklingum til að taka þátt í rannsókn: “Hlutverk LL-37 í psoriasis og tengsl þess við D-vítamín”.
Óskað er eftir sjálfboðaliðum frá 18 ára aldri með staðfesta greiningu á psoriasis til þátttöku í rannsókn á tengslum varnarpeptíðsins LL-37 við meingerð psoriasis.

Leitað er að 20 þátttakendum í rannsókn sem varir í 6 vikur og felur í sér tvær læknisheimsóknir á Húðlæknastöðina, í byrjun og enda meðferðar, og hefðbundna ljósameðferð þess á milli.

Þátttakendur þurfa að vera með greindir með psoriasis og hafa mikla útbreiðslu á útbrotunum. Einnig mega þátttakendur ekki hafa verið á ónæmisbælandi lyfjum eða líftæknilyfjum eða hafa verið í ljósameðferð í 4 vikur áður en rannsókn hefst.

Tilgangur rannsóknarinnar er að fá meiri vitneskju um grunnmeingerð psoriasis og hvernig varnarpeptíðið LL-37 spilar inn í meingerðina. Áhætta af þátttöku felst í mögulegum aukaverkunum vegna ljósameðferðarinnar og óþægindum vegna húð- og blóðsýnatöku.

Fyrir utan hina hefðbundnu læknisheimsókn, mun allur annar kostnaður vegna meðferðarinnar verða þátttakendum að kostnaðarlausu.

Rannsóknin hefur fengið leyfi Vísindasiðanefndar og verður framkvæmd á Húðlæknastöðinni, Smáratorgi 1, Kópavogi í samstarfi við ónæmisfræðideild Landspítalans. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildarinnar (bjornlud@landspitali.is).

Ef þú hefur áhuga á að fá upplýsingar um rannsóknina, vinsamlegast hafðu samband með því að senda tölvupóst á hildusig@landspitali.is eða með því að hringja í síma: 543 5800 / 543 5803 (Hildur).
Tekið skal fram að þeir sem svara auglýsingunni hafa ekki skuldbundið sig til að taka þátt í rannsókninni. Taki þeir þátt, geta þeir dregið sig út úr rannsókninni, án þess að gefa sérstaka ástæðu fyrir ákvörðun sinni.

Read more

Nordpso fundur á Íslandi

Síðastliðna helgi, 16-18 nóvember var haldinn stjórnarfundur Nordpso á Íslandi. Nordpso er samstarfsvettvangur allra norrænna psoriasis (og stundum exem) samtaka. Markmið samstarfsins er annars vegar að styðja hvert annað, fræða, læra hvert af öðru og svo eru stundum gerð stærri langtíma verkefni sem félögin starfa saman að. Eitt slíkra verkefna er svokallað Mutilans verkefni sem er samnorrænt verkefni norrænna gigtarlækna sem hafa síðustu árin rannasakað svokallaða mutilans mynd psoriasis gigtar. Rannsóknin er gífurlega mikilvæg því lítið var vitað um þennan sjúkdóm áður.

Dr. og prófessor Björn Guðbjörnsson hefur stýrt þessu verkefni og kynnti meðal annars rannsókn Mutilans hópsins á nýafstöðnum alþjóðadegi psoriasis þann 29.október. Björn skrifaði einnig um psoriasis gigt og mutilans í nýjasta tímariti Spoex en meira má lesa um það hér.

Þegar Nordpso fundir eru haldnir er jafnan hefð fyrir því að fulltrúar ungliða hverrar þjóða hittist við sama tilefni og haldi eigin fundi og stundum viðburði. Markmið þeirra er að styðja samnorrænt ungliðasamstarf og einkum hafa þau sinnt fræðsluhlutanum vel síðustu ár.

Á meðfylgjandi myndum má annarsvegar sjá hópmynd af fulltrúum Nordpso og ungliðum þjóðanna. Hins vegar er mynd frá fundarstarfinu þegar Dr. Björn Guðbjörnsson kom og kynnti nýjustu rannsóknir Mutilans verkefnisins.

Read more