Aðalfundur Spoex verður haldinn þriðjudaginn 28. apríl kl. 19:30 í sal Gigtarfélags Íslands, Ármúla 5.
Fundurinn hefst á aðalfundarstörfum og stjórnarkjöri skv. lögum félagsins.http://www.spoex.is/spoex/log-spoex/
Eftir kaffihlé mun Dr. Björn Guðbjörnsson prófessor í gigtarrannsóknum segja frá The Nordic PAM Study – Sóraliðalöskun á Norðurlöndum en hann er formaður rannsóknarhópsins.
Veitingar í boði Actavis.
Nánar um erindi Dr. Björns:
Sóragigt er algengur kvilli en u.þ.b. 0.3% fullorðinna fá sóragigt sem hefur margbreytilegt birtingarform. Flestir sóragigtarsjúklingar fá liðbólgur í útlimaliði, aðrir hryggikt og enn aðrir fá festumeinavanda og svokallaða pulsufingur. Sjaldgæfasta birtingarmynd sóragigtar er svokölluð sóraliðlöskun, sem einkennist af alvarlegum liðskemmdum oftast í smáliðum handa og fóta – sjá mynd. Liður sem verður fyrir sóraliðlöskun verður ónothæfur sem veldur alvarlegri færnisskerðingu og fötlun.
Fáar rannsóknir hafa einblínt á sóraliðlöskun og því er takmörkuð þekking um þennan alvarlega gigtarsjúkdóm fyrir hendi. Því ákvað NORDSPO, sem eru samtök psoriasisfélaga á Norðurlöndum, að koma á fót samnorrænum rannsóknarhóp húð- og gigtarlæknar til að rannsaka algengi og birtingarmynd sóraliðlöskunar á Norðurlöndum. Prófessor Björn Guðbjörnsson, gigtarlæknir við Rannsóknarstofuna í gigtarsjúkdómum við Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands hefur leitt þennan rannsóknarhóp og mun hann kynna fyrir félagsmönnum stöðu og helstu niðurstöður verkefnisins, þar á meðal algengi, birtingarmynd, lífsgæði og niðurstöður úr myndgreiningu, sem eru mikilvægar til greiningar á þessu sjúkdómsástandi. Snemmkomin sjúkdómsgreining er forsenda þess að unnt sé að beita virkri meðferð til að koma í veg fyrir þessar alvarlegu liðskemmdir.
Recent Comments