Aðalfundur Spoex 2015

Aðalfundur Spoex verður haldinn í sal Gigtarfélags Íslands, Ármúla 5, þriðjudaginn 28. apríl kl. 19:30
Fundurinn hefst á aðalfundarstörfum og stjórnarkjöri skv. lögum félagsins.http://www.spoex.is/spoex/log-spoex/
Eftir kaffihlé mun Dr. Björn Guðbjörnsson prófessor í gigtarrannsóknum segja frá The Nordic PAM Study – Sóraliðalöskun á Norðurlöndum, en hann er formaður rannsóknarhópsins.

Sjá einnig: https://www.facebook.com/events/431048133735207/

Read more

Í minningu Gísla Kristjánssonar

 

GK

Gísli Kristjánsson, f.d. 2. ágúst 1924 d. 16. mars 2015.

Í dag kveðjum við Gísla Kristjánsson. Við í Spoex, samtökum psoriasis- og exemsjúklinga viljum minnast félaga okkar sem gaf okkar samtökum og félagsmönnum mikið.

Gísli sat í stjórn samtakanna lengur en nokkur annar félagi eða frá 1980 til 2007 með nokkrum hléum. Starf hans fyrir samtökin spannar því tæp þrjátíu ár og er framlag hans ómetanlegt, framlag sem samtökin búa vel að. Áhugi Gísla sneri einkum að húsnæði samtakanna og rekstri göngudeildar og nýttist reynsla og þekking Gísla þar vel. Gísli var fyrsti og eini heiðursfélagi samtakanna. Ekki má gleyma hlut Ernu Guðmundsdóttur, eiginkonu Gísla sem lést á síðasta ári, en hún tók virkan þátt í starfinu með Gísla.

Gísli var um margt eftirminnilegur persónuleiki. Hann hafði góða nærveru og framkomu sem einkenndist af virðingu og háttvísi. Hann var glettinn og átti auðvelt með að létta lund þeirra sem í kringum hann voru með hnyttnum tilsvörum, gamansögum og stundum saklausum „hrekkjum“. Oft var erfitt að átta sig á því hvort Gísli var að grínast eða tala í alvöru.

Ekki kvartaði Gísli yfir sinni líðan þó eflaust hafi oft verið tilefni til. Þess heldur var hann ávallt tilbúinn til að styrkja og hvetja aðra í baráttunni við að fá bata og betri líðan. Gísli var uppfinningasamur og var oft að prófa nýja hluti í tilraunaskyni til að ná bata og kynnti það fyrir okkur hinum.

Minningin um Gísla Kristjánsson mun lifa innan samtakanna og meðal okkar sem kynntumst honum og nutum samvista við. Fjölskyldu Gísla eru færðar innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Samtaka psoriasis- og exemsjúklinga

Helgi Jóhannesson, fv. formaður

Read more

Opið 10-14 föstudag

Á morgun 6. mars verður styttri opnun á göngudeildinni í Bolholti 6.

Opið verður kl. 10-14. Sjáumst.

Read more