Þann 15. nóvember 1972 voru Samtök psoriasis- og exemsjúklinga, Spoex, stofnuð.
Það er ekki síður þörf nú en þá, að hafa starfandi sterk hagsmunasamtök þar sem rödd fólks með þessa ólæknandi sjúkdóma, heyrist. Stjórn samtakanna hefur á þessu ári fundað með landlækni, heilbrigðisráðherra, formanni siglingarnefndar og starfsfólki Sjúkratrygginga til að gera allt sem hún getur til að koma í veg fyrir meiri niðurskurð á meðferðum sjúklinga. Samtökin hafa tekið þátt í samstarfi innanlands þar sem 46 sjúklingasamtök sendu frá sér yfirlýsingu til að lýsa áhyggjum vegna ástandsins á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Einnig höfum við átt í góðu samstarfið við Gigtarfélag Íslands og Félag sykursjúkra um fræðslu og erum í samstarfi við Félag íslenskra húðlækna og Astma- og ofnæmissamtökin vegna endurnýjun á bæklingum. Spoex er eitt fjölmargra félaga innan Öryrkjabandalags Íslands.
Spoex rekur göngudeild með ljósameðferðum fyrir psoriasis- og exemsjúklinga í Bolholti 6 og þarf beiðni frá húðlækni til að fá meðferð.
Nýlega voru send út árgjöld Spoex í heimabanka félagsmanna og viljum við nota tækifærið og minna félagsmenn á að greiða það sem fyrst, þar sem árgjöldin eru stór liður í fjármögnun félagsins. Einnig hvetjum við aðra til þess að ganga í félagið og styrkja það þannig sem málsvara þess fjölda fólks sem glímir við þessa sjúkdóma, lungann úr ævinni.
Recent Comments