Exem

Orðið „eczema“ er gríska og þýðir „að sjóða upp úr“ eins og þegar sýður í potti. Þessi lýsing á stundum vel við þar sem sjúkdómurinn lýsir sér oft sem litlar vessafylltar blöðrur í húðinni. Exem, eins og sjúkdómurinn kallast á daglegu máli, hefur umfangsmikla skilgreiningu innan húðsjúkdómafræðinnar og er notað sem heiti yfir marga sjúkdóma. Í reynd er hér um að ræða bólgu í ystu lögum húðarinnar sem ekki er af völdum baktería eða veira og því ekki sýking.

Orsakir exems eru ýmist erfðafræðilegar eða utanaðkomandi auk þess að vera í fjölmörgum tilvikum óþekktar. Exem á höndum er oft blanda alls þessa. Sem dæmi getur barnaexem á höndum versnað vegna utanaðkomandi þátta svo sem sterkra sápa, leysiefna eða jafnvel af ofnæmi fyrir efnum sem koma í snertingu við húðina.

Exemhúð roðnar gjarnan, bólgnar og flagnar síðan. Oft fylgir kláði en þó ekki í öllum tilvikum.

Oft myndast sprungur í húðinni og geta þær valdið sviða og sársauka. Stundum myndast litlar vessafylltar blöðrur sem klæjar iðulega mikið undan og verða síðan að litlum vessandi sárum. Handaexem eru mjög algeng og ætla má að um 20% norðurlandabúa hafi eða fái handaexem einhvern tíma á ævinni. Þau geta valdið því að viðkomandi verði óstarfhæfur til lengri eða skemmri tíma.

Ekki er óalgengt að skipta þurfi um starfsvettvang vegna handaexems. Þetta á sérstaklega við í atvinnugreinum þar sem mikil snerting er við leysiefni, sápur og önnur efni af líkum toga.

Tekið úr bæklingnum Handaexem eftir Jón Hjaltalín Ólafsson og Steingrím Davíðsson sérfræðinga í húðsjúkdómum.