Andmæli Spoex við fyrirhugaðri hækkun á greiðsluþátttöku sjúklinga

Tilgangur þessarar yfirlýsingar er að upplýsa félagsmenn Spoex, Samtaka psoriasis- og exemsjúklinga og aðra, um afstöðu félagsins til nýrrar reglugerðar um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í heilbrigðisþjónustu. Reglugerðin felur í sér lækkun niðurgreiðslu sem hefur gífurleg áhrif á psoriasis- og exemsjúklinga sem sækja langar ljósameðferðir, margir oftar en einu sinni á hverju ári. Í drögum að reglugerð sem Velferðarráðuneytið birtir á vefsíðu sinni, dagsett 7.desember 2016, er greiðsluþátttaka sjúkratryggðs einstaklings sem fær húðmeðferð skv. 24. – 26. gr. þessarar reglugerðar hækkuð úr 20% í 90% af umsömdu heildarverði. Slík hækkun er óskiljanleg og ósanngjörn að öllu leyti. Þrátt fyrir að hámarkskostnaður fyrir almennan einstakling sé 69.700 kr. þá munu allir skjólstæðingar Spoex sem þurfa á ljósameðferðum að halda greiða mun hærra gjald fyrir þjónustuna en þeir gera í dag. Stjórn Spoex andmælti fyrirhugaðri reglugerð um greiðsluþátttöku fyrir hönd skjólstæðinga sinna í gegnum sameinaða rödd Öryrkjabandalags Íslands og í svari félagsins til Velferðarráðuneytis í desember 2016. Stjórnin hefur áhyggjur af því að fyrirhuguð hækkun á kostnaðarþátttöku muni valda því að færri sjúklingar leiti sér meðferðar og sjúkdómseinkenni psoriasis og exems muni því versna. Alþjóða- og heilbrigðismálastofun gaf árið 2016 út skýrslu sem staðfestir psoriasis sem ólæknandi, sársaukafullum og hamlandi sjúkdómi sem hefur lýti í för með sér. Þeir sem eru með psoriasis eru auk þess í meiri hættu gagnvart samverkandi sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, offitu, hjartaáfalli og þunglyndi. Allt að 42% psoriasissjúklinga þróa einnig með sér psoriasisgigt sem veldur sársauka, stirðleika og getur leitt til varanlegrar afmyndunar og bæklunar.Ljósameðferð er kostnaðarminnsta meðferðarúrræði sem er í boði fyrir psoriasis og exemsjúklinga.
Ekki er enn búið að birta drögin að reglugerðinni en samkvæmt upplýsingum frá Velferðarráðuneytinu og Sjúkratryggingum mun hún taka gildi 1. maí 2017. Ennfremur fæst ekki séð hvernig þessi mikla kostnaðarþátttaka sjúklinga fæst rökstudd. Ef markmið breytinganna er að lækka kostnað sjúklinga við meðferðir þá er það ekki að skila sér fyrir þennan sjúklingahóp þar sem sjúklingar þurfa mikla og viðvarandi meðferð. Töluverðar breytingar þarf að gera á öllum kerfum Spoex og ljóst er að kostnaður félagsins verður einhver við þær breytingar. Væntanlegar breytingar hafa ekki verið kynntar sjúklingafélögum af hálfu Sjúkratrygginga þrátt fyrir að aðeins sé rúmur mánuður þar til að reglugerðin á að taka gildi.
Spoex mun beita sér fyrir því að þær breytingar sem á að gera á greiðsluþátttöku vegna ljósameðferða, verði ekki jafn íþyngjandi og útlit er fyrir.
Fyrir hönd stjórnar Spoex,