Fræðsluvídjó um psoriasis og alþjóðadagur psoriasis 2016


Fyrsta fræðslumyndbandið sem við sýnum fjallar um sjúkdóminn psoriasis. Ár hvert er alþjóðadagur psoriasis haldinn hátíðlegur þann 29.október en vegna komandi alþingiskosninga var deginum flýtt á Íslandi í ár.
Í gær, 25. október var húsafyllir, meira en 100 manns mættu á Grand Hótel Reykjavík til að fagna deginum með okkur. Frábær erindi frá Jennu Huld Eysteinsdóttur húðlækni, Dr.Evgeníu Mikaelsdóttur verkefnastjóra hjá Íslenskri erfðagreiningu og Anítu Sif Elídóttur næringarfræðingi.

Ingvar Ágúst formaður Spoex opnaði fyrirlestrarröðina með þökkum til félagsmanna sem hlupu fyrir Spoex í Reykjavíkurmaraþoninu, þeirra sem tóku þátt í fræðslumyndböndunum og viðtöku peningaframlags frá fyrrum formanni, Alberti Ingasyni í Vísindasjóð Spoex.

Vísindasjóður Spoex er rannsóknarsjóður, stofnaður af Bárði Sigurgeirssyni húðlækni. Markmið sjóðsins er að veita styrki til rannsókna á psoriasis -og exemsjúkdómum á Íslandi. Ekki hefur verið veitt úr sjóðnum þar sem enn er verið að safna í höfuðstól. Veittir verða styrkir af vöxtum af höfuðstól, þegar höfuðstóll hefur náð 10 milljónum króna.
Sjóðurinn tekur bæði við framlögum fyrirtækja og einstaklinga. Meðfylgjandi eru reikningsupplýsingar um sjóðinn:

 kt: 701205-3670 reikn: 328-13-300481

Vilji fólk veita framlag í sjóðinn er gott að hafa samband við skrifstofu Spoex á netfangið skrifstofa@spoex.is.

Kærar þakkir til allra þeirra sem tóku þátt í deginum með okkur, við hlökkum til að endurtaka leikinn á næsta ári!